138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

almenn hegningarlög.

547. mál
[14:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum sem á að taka á þeim vanda að menn hafi auðgast á ólögmætan hátt og ekki sé hægt að ná í þá fjármuni með eðlilegum hætti fyrir dómstólum, eða þannig skil ég þetta. Nú er ég ekki lögfræðingur. Ég er búinn að lesa þessa einu grein mjög ítarlega en finnst hún vera mjög opin. Það stendur, með leyfi frú forseta:

„Nú er ekki unnt í sakamáli að færa sönnur á brot … sem sennilegt þykir að framið hafi verið ef beitt væri reglum um sönnunarmat í einkamálum …“

Það er sem sagt ekki hægt að sanna eitthvað en samt á að gera eitthvað. Nú er ég ekki lögfræðingur en mér finnst þetta mjög ankannalegt.

Á það er minnst í greinargerð að frumvarpið er samið vegna afleiðinga af hruninu og við skoðun hefur komið í ljós að áföll margra ríkja eins og Íslendingar lentu í hafa leitt til þess að réttarríkið er í hættu og að mannréttindi séu fótumtroðin. Þetta er það sem við þurfum að gæta alveg sérstaklega að. Ég er uggandi yfir því að þetta gæti skemmt réttarríkið eða meitt og þá erum við illa stödd. Ég held að við ættum að skoða þetta mjög vandlega.

Ég fellst hins vegar alveg á þau sjónarmið sem menn eru að reyna að laga og ég held að menn ættu að leggjast yfir það í allsherjarnefnd, þar sem eru margir ágætislögfræðingar, að þeir fái það verkefni frá hv. þingheimi, alla vega frá mér, að finna á þessu góða lausn þannig að menn hagnist ekki á því að stunda lögbrot en engu að síður sé allra reglna réttarríkisins gætt.

Það sem gerir okkur erfitt um vik er að við erum að tala um fortíðina og við breytum henni ekki. Það hefur ekki verið talin góð lagasetning sem leggur einhverjar kvaðir á almenning í fortíðinni, þ.e. afturvirk lög eru ekki talin sæmandi einmitt því sama réttarríki og ég var að tala um. Okkur er því vandi á höndum með þetta mál. En ég fellst alveg á markmið laganna og legg til að hv. allsherjarnefnd, sem fær þetta til umfjöllunar, leggi nokkra vinnu í að finna á þessu góða lausn.