138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

almenn hegningarlög.

547. mál
[14:32]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Pétri H. Blöndal fyrir þátttöku þeirra hér í umræðunni, mér þykir vænt um undirtektir þeirra. Það er vissulega rétt að meðalhófið er vandratað og þá ekki síst í umhverfi eins og við búum í í dag í kjölfar hruns. Gæta þarf að því að þeysa ekki út á göturnar með heykvíslarnar og reka mann og annan á hol. Til þess að varna því er um leið mikilvægt að við stöndum þannig að verki hér á löggjafarsamkomunni að niðurstaðan verði ekki sú að almenningur upplifi það að menn hafi komist upp með afbrot, augljós afbrot, sem ríkar sönnur hafi verið hægt að færa á, og lifi í vellystingum praktuglega á hinum ólögmæta ávinningi vegna þess að löggjöfin hafi ekki verið nægilega vel búin.

Því er það að þetta mál er flutt. Til upplýsingar fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal snýr málið ekki að því að ekki séu sönnur færðar á heldur að því að til þess að gera upptækar eignir séu bara gerðar venjulegar sönnunarkröfur eins og í venjulegu dómsmáli í einkamálarétti þar sem dómarinn vegur og metur hvort búið sé að sýna fram á það nægilega ítarlega að málið sé vaxið með einhverjum tilteknum hætti. Það eru út af fyrir sig vægari kröfur um sönnunarfærslur en í sakamálarétti og í opinberu réttarfari vegna þess að við gerum margfalt meiri kröfur á opinbera saksóknara í refsimáli en við gerum nokkurn tíma um sönnun í venjulegum einkamálum fyrir dómi.

Það er þess vegna að þegar verið er að stefna til upptöku eignanna er ekki krafist sömu sönnunarfærslu og í refsimálum og þess vegna verður saksóknurunum fært, ef þeir telja sig hafa sönnur fyrir því að lög hafi verið brotin og sönnur fyrir því að verulegur ólögmætur ávinningur hafi orðið af þeim brotum, að stefna til upptöku eignanna ef þeir óttast að þeir séu samt ekki með svo fullkomin sönnunargögn að þeir fái örugglega dóm í refsimáli. Þessu úrræði er ekki ætlað að beita á Pétur eða Pál því að gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að það nái aðeins til mjög verulegra brota sem varði allt að sex ára fangelsi og mun þess vegna fyrst og fremst ná til umfangsmikilla svika- og brotamála.

Ég tek undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að verkefni allsherjarnefndar er að skoða þetta málasvið sem, eins og kom fram hjá hv. þm. Birgi Ármannssyni, hefur verið í þróun alþjóðlega og þarfnast umræðu og umfjöllunar. Allsherjarnefnd er af hálfu þingsins vel skipuð eins og kunnugt er og það er einmitt hennar verkefni, eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi, að vinna málið á þann veg að markmið þess náist en mannréttinda sé sannarlega gætt. Og ég tel raunar að það sé að fullu gert í því eins og það er fram lagt.