138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[14:56]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þetta innlegg frá hv. þingmanni og þakka undirtektir hans. Það eru örugglega margvíslegar skýringar á því hvers vegna ekki hafa komið fram tillögur í þeim efnum að auka aðhaldið með þessum þætti í starfsemi ríkisins. Ég held að hluti af skýringunni hafi einfaldlega verið sá að á undanförnum árum, allnokkrum, hafi þingmenn og þingið kannski ekki verið mjög upptekið af að hafa áhyggjur af því að það ætti ekki fyrir þeim útgjöldum sem menn stofnuðu til. Í það minnsta minnist ég þess á mínum skamma þingferli að það var í fyrsta skipti við afgreiðslu fjárlaga síðasta árs sem sú afstaða kom frá stjórnmálaflokki á Alþingi í langan tíma að gera ekki eina einustu tillögu til útgjaldaauka við fjárlagagerð ársins 2010. Ég held að það sé nánast einsdæmi í þingsögunni að stjórnarandstaðan hafi komið að fjárlagagerð með þeim hætti og ég tel það einfaldlega til vitnis um að hugsun manna og afstaða gagnvart þessum málum sé mjög að breytast.

Af því að hv. þingmaður nefndi lokafjárlög ársins 2008 þá tek ég undir þau sjónarmið sem hann setur fram en vil engu að síður nýta tækifærið til að vekja athygli á því að á árinu 2010, þegar komið er fram á sumar, er Alþingi Íslendinga að fjalla um lokafjárlög ársins 2008 sem eiga að staðfesta ríkisreikning fyrir það ár. Og þetta er einn eitt dæmið um það hversu seinlegt þetta ferli og vinnsla þessara mála er.