138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[14:58]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þarf svo sem ekki að bæta miklu við það sem komið hefur fram hjá hv. þingmanni sem ég reifaði í fyrra andsvari mínu ef svo má kalla. Ég átti ekki við að ekki hafi verið gerðar tillögur um breytingar á undanförnum árum. Það hafa sannarlega verið lagðar fram tillögur um breytingar á þessum málum hér á þingi á mörgum undanförnum árum en ekki náð fram að ganga.

Það er hins vegar alveg rétt, sem hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði áðan, að hugsunin er sem betur fer að breytast í þessum málum. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni varðandi fjárlagagerðina fyrir yfirstandandi ár — ég er ekki hokinn af reynslu í þeirri vinnu, en eftir því sem mér skilst hefur annar andi svifið yfir vötnum en verið hefur á undanförnum árum eins og hv. þingmaður nefndi áðan.

Það er vissulega við gríðarlegan vanda að etja í ár, 100 milljarða halla, 300 milljónir á dag. Við stöndum okkur vel við að reka ríkið þetta árið, ætlum við að reyna að halda okkur við að gera það ekki með meiri halla en u.þ.b. 300 millj. kr. á dag og það er býsna há tala. Það er því ánægjulegt að alla vega fyrstu merki sem eru sjáanleg varðandi rekstur ríkisins á fyrstu mánuðum ársins benda til þess að heilt yfir séum við innan marka. Það eru vissulega, eins og hv þingmaður benti á, einstaka þættir sem betur mættu fara og er verið að kalla eftir skýringum á en okkur er samt að takast betur en margir þorðu að vona að fylgja eftir fjárlögum þessa árs. Og ég ætla að vona að það sé merki um að við förum þannig í gegnum árin. Það er a.m.k. fátt sem bendir til annars að mínu viti.