138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[15:00]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir sjónarmið og óskir hv. þingmanns um það að okkur auðnist að fylgja fjárlögum ársins þokkalega vel og bærilega vel, ekki veitir af. Ég hef hins vegar ákveðnar áhyggjur af því að það lukkist ekki með þeim hætti sem að var stefnt, því miður. Þannig háttar til að fjármálaráðherra hverju sinni er í mjög einkennilegri stöðu gagnvart öðrum ráðuneytum við verkefni sitt. Ég minnist þess, þegar maður var að fylgjast með þessu áður en ég kom hér til þings, að þeir fjármálaráðherrar sem sátu hér á síðustu árum voru oftar en ekki skammaðir blóðugum skömmum af stjórnarandstöðunni fyrir það að vilja leggja til hliðar ákveðna fjármuni til að eiga til mögru áranna. Þar var slagurinn ætíð á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um það að ráðstafa sem mestu fé til hinna mætustu og mikilsverðustu útgjalda sem allir gátu réttlætt. Því miður voru áhyggjur manna ekki meiri en svo að það mætti alveg taka undir málstað fyrrverandi fjármálaráðherra allra á þessum árum, að þeir hefðu betur náð sínu fram. Þeir fengu kannski ekki til þess nægilegan stuðning því að það voru svo margir að bítast um þessa gríðarlegu fjármuni sem allir töldu vera til ráðstöfunar um aldur og ævi, sem hefur komið í ljós að var því miður ekki og við erum að glíma við það núna.

En þetta segi ég í þessu stóra samhengi. Ég vænti þess að sú vinna sem fram undan er gangi þokkalega og að við fáum betri upplýsingar. Ég hef ekkert yfir andanum í fjárlaganefnd að kvarta og ekki heldur á síðasta kjörtímabili, það var ágætisandi í því starfi, langur vegur frá að stór ágreiningsmál væru uppi. Engu að síður eru blikur á lofti varðandi tekjuhluta fjárlaga ársins 2010 og ekki síður gjaldahlutann. Það sem ég hef mestar áhyggjur af varðandi gjaldahlutann er það að maður sér að áætlanir sem gerðar voru um útgjöld á ákveðnum liðum, sem hefðu átt að vera nokkuð borðleggjandi, eru farnar úr skorðum núna og ég (Forseti hringir.) er mjög hugsi yfir því, svo að ekki sé meira sagt.