138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[15:09]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að ég svari því bara strax þá held ég að fjárlaganefnd ætti að taka frumkvæði í þessum efnum, mjög einfalt og skýrt svar. Það sem lýtur að pólitíkinni, og hv. þingmaður nefndi hér, þá held ég að hina pólitísku umræðu um fjárlögin eigi að taka hér í þessum sal áður en framkvæmdarvaldið fer að möndla með þetta eins og gert hefur verið. Ég held ég geti fullyrt að vantað hafi dýpri og betur grundaða pólitíska umræðu um áherslurnar við fjárlagagerðina á hinu háa Alþingi, einfaldlega út af því hvernig verklagið er.

Víkjum aftur að þessu ágæta frumvarpi. Ástæðan fyrir því að það er sett fram með þessum hætti er í mínum huga sú — verklagið hefur beinlínis valdið því að þetta er hálflosarakennt, er enn og engin breyting á því — að ráðherrar hafa verið oftar en ekki mjög sjálfstæðir í ákvörðunum sínum varðandi rekstur og starfsemi þátta sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti. Þegar menn hafa farið að reka sig á hefur þrautaráðið alltaf verið það að benda á fjármálaráðuneytið þegar menn hafa verið komnir upp að vegg í rekstri eigin stofnana. Þegar það liggur fyrir að rammarnir sem úthlutað hefur verið eftir og verklagið og reglugerðin gerir ráð fyrir því að viðkomandi fagráðuneyti sé ábyrgt frá upphafi til enda gagnvart þeim fjárheimildum sem því ber að rækja og ber skylda til að virða gagnvart Alþingi er venjan sú að menn reyni að skjóta sér undan með þeim hætti.

Ég geri þar af leiðandi ráð fyrir því að þegar frumvarp þetta verður að lögum verði ábyrgð ráðherra, sem æðsta embættismanns í fagráðuneytinu, endanleg og skýr og það styrkir bæði Alþingi og fjármálaráðuneytið í því verkefni að halda utan um fjárlög ríkisins.