138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[15:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér ætti að vera í algjörum forgangi. (PHB: Algjörlega.) Þetta er eitt af þeim málum sem þingið ætti að fara mjög gaumgæfilega yfir og miðað við áherslurnar hefði maður ætlað að svona mál kæmi frá ríkisstjórn. En hér er komið þingmannafrumvarp sem ég er m.a. flutningsmaður að. Ég vonast til að við fáum góða umræðu um það í nefnd og klárum málið á þessu þingi. Hér er um að ræða tæki löggjafans, eða umgjörð löggjafans, til að halda hinu opinbera innan fjárlaga og það er ekki einfalt. Þegar menn líta til baka er augljóst, og á því bera allir ábyrgð, að hér hafa verið mjög mikil lausatök í fjármálum, í ríkisfjármálum, í opinberum fjármálum getum við bara sagt. Það sama á við um sveitarfélögin.

Ef við gætum farið í tímavél og farið tvö til þrjú ár aftur í tímann til að rifja það upp hvernig umræðan var hér í þessum sal að þá fullyrði ég að það voru fáar raddir ef einhverjar sem töluðu um að auka þyrfti agann í ríkisfjármálum. Þvert á móti voru ráðherrar ávallt gagnrýndir fyrir að setja ekki nægilega fjármuni í hina ýmsu mætu málaflokka. Ef upp kom vandi í rekstri einstakra stofnana var almenna reglan sú að horft var til ráðherra ríkisstjórnar og sagt: Af hverju eru ekki meiri peningar til? Að þessu leyti erum við mörgum árum, kannski áratugum, á eftir þeim löndum sem við berum okkur saman við og við verðum að snúa þessu hratt og vel.

Fyrsti flutningsmaður, hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, vísaði hér í athugasemdir frá Ríkisendurskoðun. Hann vék hins vegar ekki að einni af þeim grundvallarathugasemdum sem komu fram hjá Ríkisendurskoðun, þ.e. að það er á ábyrgð stjórnmálamanna, ráðherra, að ná fram sparnaði. Núna er tilhneigingin sú, og við finnum það í allri umræðu, að ráðherrar segja: Forstöðumennirnir eiga að útfæra sparnaðinn. Það er alveg rétt, forstöðumaður á að útfæra, en það verður að koma pólitísk lína frá viðkomandi ráðherra úr ríkisstjórn.

Hv. þingmaður fór yfir það, og þetta er eitthvað sem vekur ekki mikla athygli, að margar ríkisstofnanir fara fram úr fyrstu þrjá mánuði ársins. Eins og segir í minnisblaðinu, sem hv. þingmaður las upp úr, eru af 22 skilgreindum veikleikaliðum, eins og það er orðað, 13 innan heimildar tímabilsins. Hér er vísað í Landspítalann, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Sjúkratryggingar sérstaklega. Þar er t.d. nauðsynlegt að ráðherra leggi upp með það hvernig ná eigi fram þeim sparnaði sem farið er í. Sjúkratryggingar eru gott dæmi. Ekki er enn búið að upplýsa þingið um hvaða leið á að fara t.d. til að ná 2 milljarða króna sparnaði í sérgreinalækningum. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef, og ég sit í heilbrigðisnefnd, er ekki byrjað að fara í þennan sparnað.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að í dag er 11. maí og það á að ná 2 milljarða sparnaði bara á þessum lið. Ef við gefum okkur það, sem ég held að sé því miður rétt, að menn hafi ekki náð neinum sparnaði á þessum fyrstu fimm til sex mánuðum ársins er rétt hægt að ímynda sér hvernig það kemur niður á seinni hluta tímabilsins. Þá á eftir að fara í sparnaðinn sem verður farið í á næsta ári, árið þar á eftir o.s.frv.

Því miður hætti ríkisstjórnin, í þessum viðkvæma málaflokki, við þann sparnað og það pólitíska upplegg sem lagt var upp með í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar og hefur ekki komið með neitt í staðinn. Það er ekki hægt að koma því yfir á forstöðumennina. Hér áður held ég að hlutirnir hafi verið með þeim hætti að forstöðumenn hafi metið það þannig, án þess að það hafi verið sagt, með því að bera sig saman við aðra forstöðumenn og aðrar stofnanir, að meiri hagur væri af því að ná ekki fjárlögum en minni. Það hjálpaði til þar, bæði pólitíska andrúmsloftið á þinginu, sérstaklega stjórnarandstaðan, og svo sannarlega fjölmiðlar.

Við þekkjum öll fjölmiðlaumræðuna út af hinum ýmsu stofnunum og flestar stofnanir eru þess eðlis að þær eru viðkvæmar að því leytinu til að um er að ræða þjónustu sem við viljum að sé veitt. Venjan hefur verið sú, ef við tökum fjölmiðlaumhverfið, þ.e. þegar umræða hefur orðið um að fjárlagaliðir hafi farið fram úr fjárlögum, að fyrsta spurningin sem beint hefur verið að viðkomandi forstöðumanni hefur ávallt verið þessi: Vantar ekki afskaplega mikla peninga? Þannig var umræðan. Forstöðumenn voru aldrei spurðir, jafnvel þó þeir færu ár eftir ár fram úr, út í þann þáttinn að þeim bæri skylda til að vera innan ramma fjárlaga. Við tókum því miður allt of seint á þessu og fórum ekki í nauðsynlegar breytingar, lagabreytingar, til þess að hægt væri að taka á þessum málum, til þess að umhverfið yrði í það minnsta betra. Núna ber okkur að gera það og setja það í forgang. Mér sýnist að ef frumvarpið yrði óbreytt að lögum mundi svona umhverfi snúast við að því leytinu til að forstöðumenn mundu ýta á það að fá grænt ljós frá ráðherra til að fara í ákveðna aðgerð þannig að þeir gætu haldið sig innan fjárlaga. Ég held að það yrði niðurstaðan.

Auðvitað ber viðkomandi ráðherra ábyrgð á málaflokknum þannig að hann þarf að gefa grænt ljós á það, veita pólitískt samþykki fyrir því, þó að hann útfæri það ekki nánar í smáatriðum. Það snýst ekki um það, það eru fagmennirnir sem gera það. En við komumst ekki hjá því, hvort sem við erum að auka útgjöld eða minnka þau, að taka pólitíska ákvörðun um hvernig það er gert. Þar eins og núna þurfum við að taka mjög erfiðar ákvarðanir. Stjórnmálamennirnir, sérstaklega ráðherrarnir, þurfa að útskýra af hverju þeir fara leið A en ekki leið B. Það er nokkuð sem hefur ekki verið í umræðunni enn. Ég hef miklar áhyggjur af því að við erum ekki að taka þessa umræðu, það er ekki komin pólitísk sýn á það hvernig á að ná fjárlögum þessa árs í viðkvæmum málaflokkum, eins og t.d. heilbrigðismálum og menntamálum, og við sjáum þennan vanda magnast á mörgum stöðum, við erum að auka vandann og gera okkur enn erfiðara fyrir en raun ber vitni.

Það hjálpar ekki að í eina áminningarmálinu sem hefur komið upp er hreint og klárt um það að ræða að hæstv. ráðherra var að gera hluti sem ekki er hægt að finna nokkra stoð í lögum um að væri heimilt. Hæstv. heilbrigðisráðherra hótaði að áminna forstjóra Sjúkratrygginga fyrir það að hafa leitað álits Ríkisendurskoðunar. Það kemur alveg skýrt fram. Þegar gengið var á hæstv. ráðherra sagði hún að forstöðumanni hefði verið heimilt að gera þetta en hins vegar hefði hann þurft að spyrja sig fyrst. Það liggur alveg fyrir að það er það sem forstöðumaðurinn gerði ekki, hann spurði ekki ráðherrann fyrst. Og ef hæstv. ráðherra hefði verið samkvæmur sjálfum sér, ef þetta hefði verið ástæðan, hefði hann átt að áminna forstöðumanninn. Það er eitthvað sem var lítið í umræðunni. En fyrir því er engin stoð í lögum.

Það er alveg skýrt í starfsmannalögunum út af hverju má áminna. Það er:

1. Útgjöld fari fram úr fjárlagaheimildum. Það á ekki við.

2. Verkefnum stofnunarinnar er ekki sinnt, eða þjónusta hennar telst óviðunandi. Það á augljóslega ekki við.

3. Starfsmaður hefur sýnt óstundvísi eða vanrækslu í starfi. Það átti ekki við í þessu tilfelli.

4. Óhlýðni eða löglegt boð eða bann yfirmanns. Það á augljóslega ekki við.

5. Vankunnátta eða óvandvirkni í starfi. Það á augljóslega ekki við, í rauninni alveg þveröfugt.

6. Starfsmaður hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi. Það á sannarlega ekki við.

7. Starfsmaður hefur verið ölvaður í starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. Þetta á augljóslega ekki við.

Það mál sem ég vísa hér í, þetta eina áminningarmál sem hefur komið í tíð þessarar ríkisstjórnar mér vitanlega — ég er nú með fyrirspurn um þetta mál sem ég veit ekki hvenær ég fæ svör við, að það er í rauninni alvarlegt mál hvernig hæstv. ráðherra var að beita valdi sínu. En þetta frumvarp miðar hins vegar að því að við náum aga í ríkisfjármálunum og mættum við Íslendingar svo sem ná aga á fleiri sviðum. En við sem sitjum hér á löggjafarsamkundunni verðum að byrja á okkur sjálfum, til þess er þetta mál lagt fram. Ég vona að þetta mál verði í algjörum forgangi hér hjá okkur á þinginu.