138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[15:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég stenst ekki að koma hér upp eftir ummæli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar um að enginn stjórnarþingmaður taki til máls. Það má líklega segja að væntanlega hafa fá lög verið jafnoft brotin og fjárlögin íslenska ríkisins, það er ekki gott mál og því þarf að breyta.

Ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt, það þarf aga í framkvæmd fjárlaganna og umframkeyrsla á fjárlögum er mikill löstur á íslenskri stjórnsýslu. Ég get líka tekið mjög undir það að þinginu er ekki sýndur mikill sómi í því hvernig framkvæmdarvaldið gengur oft fram hjá þinginu þegar það fer með fjárveitingavaldið. Það afsakar það ekki neitt að það hafi verið lenska, það ber að láta af ósiðum.

Ég er sammála því sem komið hefur fram um gerð fjárlaga, auðvitað ættum við núna að ræða fjárlagarammann og fjárlögin ættu að koma fyrir þingið í smáatriðum í haust. En það tekur tíma að breyta, það tekur tíma að snúa stóru skipi og þó að Ísland sé kannski ekki freigáta heldur bara svolítið stórt skip tekur það tíma. Ég hef a.m.k. ætlað að sýna þolinmæði þetta vorið. Það er hins vegar mjög mikill löstur á því hvernig gengið er um fjármuni og skattfé landsins og það er mikill löstur á því hvernig farið er eftir vilja þingsins vegna þess að þingið hefur í rauninni lítið sem ekkert að segja um fjárlögin fyrr en þau koma í október. Þá er búið að setja allt niður á hina smæstu liði og þingið getur því ekki sett sínar áherslur á fjárlögin eins og það vill hafa þau.

Vissulega þekkja gamlir þingmenn hér á þingi það, aldnir sem ungir, að samráð er haft við stjórnarflokkana en það er að mínu mati ekki nóg. Það á að hafa samráð við Alþingi í því formi að rammi fjárlaga sé lagður fyrir á vordögum og helst í mars.

Hér hefur verið talað um að þingið eigi að gegna eftirlitshlutverki sínu. Ég er líka mjög sammála því. Á hinn bóginn vara ég við því að þingið detti niður í að leika Ríkisendurskoðun. Það er Ríkisendurskoðunar að fylgjast með einstökum stofnunum, það er Ríkisendurskoðunar að fylgjast með einstökum liðum í fjármálum ríkisins og það er þingsins að skoða stóru frávikin. Ég vara mjög eindregið við því sem mér finnst stundum koma fram hjá hv. þingmönnum þegar þeir tala um eftirlit með þinginu að þeir vilji gerast hálfgildings stóri bróðir og hafa allt undir smásjánni. Þannig á það ekki að vera að mínum dómi. Í ríkisfjármálunum er það Ríkisendurskoðunar að fylgjast með. Það er ríkisbókhaldið sem á að fylgjast með í gegnum árin og gefa hinar stóru skýrslur og síðan er það þingsins að fylgjast með því en ekki fylgjast með einstaka fjárlagaliðum.

Ég vil að lokum koma að þessu frumvarpi sem er ástæða þessarar umræðu í dag. Það leggur til að lögum um ráðherraábyrgð verði breytt. Ég er vissulega þeirrar skoðunar að ráðherrar bera ábyrgð á — ég vil ekki nota orðið fjáraustur en því sem eytt er, (GÞÞ: En fjárvestur?) hvernig fé er ráðstafað í stofnunum sem undir þá heyra, í stórum dráttum bera ráðherrar ábyrgð á því. Forstöðumenn ríkisstofnana bera náttúrlega ábyrgð á einstaka fjárlagaútgjöldum og ég vil ekki draga úr því að auðvitað er þetta ábyrgð. Ráðherrar eiga að sjá til þess að þær stofnanir og ráðuneyti þeirra sem undir þá heyra haldi sig innan fjárheimilda.

Á hinn bóginn er ég svolítið hrædd við að setja lög sem ekki yrði framfylgt. Annars staðar í þinginu er verið að fjalla um ráðherraábyrgð. Ákvæðum ráðherraábyrgðar hefur aldrei að því er ég best veit verið beitt, a.m.k. ekki á nokkrum síðustu áratugum, og ég vara við því að setja þetta núna inn í þann stóra og mikla málaflokk vegna þess að ég er hrædd um að það yrði ekki notað. Þá er þetta hótun eða ákvæði sem er einskis nýtt. Þess vegna legg ég til að skoðað verði ítarlega í fjárlaganefnd, þar sem ég geri ráð fyrir að þetta mál verði rætt, hvort það sé einhver önnur leið vegna þess að mér finnst það nokkuð bratt að ætla að setja þetta í ráðherraábyrgðina. Að öðru leyti er ég hjartanlega sammála öllum efnisatriðum frumvarpsins og reyndar flestu því sem sagt hefur verið úr þessum ræðustóli í dag.