138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

fjárreiður ríkisins.

552. mál
[16:01]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem átt hefur sér stað um þetta frumvarp. Ég held að hún sé mjög þörf, sérstaklega ef hún leiðir til þess að við tökum okkur öll á við það verkefni að ná betur utan um hvort tveggja áætlunargerð ríkisins um rekstur hinnar margvíslegu þjónustu sem þar er veitt og ekki síður um það með hvaða hætti við ætlum að halda utan um þær ákvarðanir sem Alþingi tekur í fjárlögum hvers árs.

Ég er þess ágætlega meðvitaður hversu erfitt það gæti reynst, eins og frumvarpið hljóðar, að koma þessum ákvæðum fram, sérstaklega því sem lýtur að því sem rætt er um varðandi lögin um ráðherraábyrgðina. Eins og kom fram hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur óttast hún að þessu ákvæði yrði ekki beitt og lítur þar væntanlega bæði til umræðunnar eins og hún liggur í dag og ekki síður til þess að ákvæðum þeirra laga hefur aldrei verið beitt gagnvart ráðherrum landsins. Ég er þeirrar skoðunar að upp séu runnir aðrir tímar og umræðan um þessi efni sé hafin og muni þróast með miklu ákveðnari hætti en hingað til hefur verið. Ég geri þá ráð fyrir að frumvarpið verði unnið í því ljósi og taki mið af því hvernig störfum þeirrar nefndar þingsins sem sett var á laggirnar varðandi rannsóknarskýrsluna reiðir af.

Ég tek einnig undir það sem fram kom í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur varðandi eftirlitshlutverk þingsins. Við eigum að sjálfsögðu ekki að detta niður í smásálarskapinn þar, þingið sjálft. Það er rétt, sem kemur fram hjá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni, að þingmenn fá upplýsingar sem þeir koma síðan til skila. Stóra myndin á að mínu mati að vera dregin hér í þingsölum varðandi afkomu ríkissjóðs, áherslur í stórum málum, velferðarmálum, og öllu því um líku. En útfærslan á að vera í höndum þeirra sem Alþingi hefur kjörið til þess verks að fylla út í og smíða þennan ramma saman. Eftirlitið á þá að beinast að því með hvaða hætti þeir ágætu ráðherrar sem starfa í umboði þingsins framkvæma vilja þingsins. En hingað til hefur þetta verið með þeim hætti að ráðherrar hafa tekið sér það hlutverk sem er þingsins, þ.e. að búa fjárlögin í hendur þingsins og annast síðan um allar áherslur og setja þær á oddinn. Samráðið á því að fara fram innan þingsins sjálfs, þ.e. þar geta stjórnmálaflokkarnir allir skipst á skoðunum og upplýsingum, komið sér saman um hluti o.s.frv., en pólitísku línurnar munu alltaf þurfa að skýrast í umræðu, átökum stjórnmálaflokkanna hér í tengslum við fjárlagagerðina, og ég held að það sé þarft að draga það fram. Því miður hefur það tapast við það verklag sem hingað til hefur verið viðhaft.

Ég vil að lokum segja að ástæðan fyrir því að frumvarpið er sett fram með þessum hætti er fyrst og fremst sú að draga það fram með mjög skýrum og afdráttarlausum hætti að framkvæmdin á samþykkt þingsins liggur hjá viðkomandi ráðherrum. Hingað til hafa hlutirnir gengið þannig að ráðherrann, sem æðsti embættismaður síns fagráðuneytis, hefur oft og tíðum verið í skjóli, orrahríðin er um einstakar stofnanir, einstaka forstöðumenn o.s.frv. — hann ber ábyrgðina, honum er ætlað að vinna á grunni þeirra samþykkta sem hér eru gerðar. Ég treysti því þegar þetta frumvarp fer til umræðu að menn taki þetta þokkalega vel til kostanna, þetta frumvarp, leggist vel yfir það, afli umsagna. En ég vænti þess að það geti þá orðið til þess að við komum þessum málum í fastara form því að það eru mörg fleiri álitamál uppi en þetta eina við það verkefni sem hér hefur verið rætt, og ég vænti þess þá að fjárlaganefndin geti komið þeim til ákveðinna verka.

Að endingu vil ég, virðulegi forseti, þakka fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað og vænti þess, í ljósi þeirra viðbragða sem þetta frumvarp hefur hlotið, að það nái með einhverjum hætti að verða að lögum í fyllingu tímans.