138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

gjaldþrotaskipti.

563. mál
[16:09]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mál sem lætur ekki mikið yfir sér en snertir ákveðinn hóp fólks sem á sér alla jafna kannski ekki marga málsvara og það eru þessir litlu einyrkjar. Þeir eru ekki litlir í sentímetrum heldur er þetta fólk sem er í litlum rekstri og framfleytir sér með því en hefur, alveg eins og aðrir landsmenn, margir hverjir, lent í vandræðum í tengslum við þetta kerfishrun, þetta bankahrun sem við þekkjum öll.

Frumvarpið er mjög einfalt. 1. gr. hljóðar svo: „2. mgr. 63. gr. um lög um gjaldþrotaskipti falli brott.“ 2. gr. er: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Einfaldara getur það ekki verið. Þetta snýst einfaldlega um það að í lögum um gjaldþrotaskipti er gert ráð fyrir að einstaklingi sé veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef sýnt er fram á að hann verður fyrirséð um framtíð ófær um að standa í skilum með skuldbindingar sínar. En í 2. mgr. er gildissvið ákvæðisins þrengt þannig að heimildin nær ekki til einstaklinga sem undanfarin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi. Hafi einstaklingurinn hætt atvinnurekstrinum og skuldbindingar sem stafa af honum eru aðeins lítill hluti af heildarskuldum hans getur hann þó leitað nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Nú skal það haft í huga að þeir aðilar sem skulda út af atvinnurekstri sínum á sinni eigin kennitölu, sem er óvanalegt, því að flestir setja þetta í sérstök hlutafélög til að takmarka ábyrgð sína, eru í rauninni að leggja allt sitt undir og leggja það væntanlega þannig upp að þetta sé framfærsla þeirra og þeir eigi miklu meira sameiginlegt með heðfbundnum launamönnum en atvinnurekendum eins og við þekkjum þá almennt. Flestir sem eiga rekstur sem er stór eða millistór eru með þetta í hlutafélagi sem gerir það að verkum að ef reksturinn fer illa þá hefur það ekki bein áhrif á fjárhag viðkomandi heimilis. En það eru þó menn, eins og t.d. iðnaðarmenn og sölumenn, sem hafa þetta á sinni eigin kennitölu, og þeir hafa t.d. lent í því að vinnuvélar eða bifreiðar sem eru í þeirra rekstri eru keyptar á erlendum lánum sem hafa margfaldast vegna gengishrunsins eða annarra þeirra fjárfestinga sem þeir hafa nýtt sér í sambandi við sinn eigin rekstur.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki neitt réttlæti í því að þetta fólk njóti ekki sömu réttinda og aðrir þeir sem við erum að reyna að aðstoða í þessu bankahruni. Þess vegna er þetta einfalt réttlætismál og þar sem við erum að fjalla um þessi mál á vettvangi þingsins legg ég til að við skoðum þetta mál samhliða og klárum það. Ég hef ekki fundið nein efnisleg rök fyrir því að við eigum að taka það fólk sem er í minnsta atvinnurekstrinum til að framfleyta fjölskyldu sinni og segja að þeir njóti ekki sömu úrræða og almennir launamenn.

Virðulegi forseti. Ég legg til að við vinnum þetta mál hratt og vel. Það er einfalt, getur ekki verið einfaldara. Þetta er réttlætismál og ég legg til að við vísum því til allsherjarnefndar og samþykkjum það sem allra fyrst sem lög frá Alþingi.