138. löggjafarþing — 121. fundur,  11. maí 2010.

gjaldþrotaskipti.

563. mál
[16:13]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Þær efnahagslegu hamfarir sem geisað hafa hafa bitnað einna harkalegast á fólki sem er með lítinn sjálfstæðan rekstur, svo sem ýmiss konar einyrkjar, iðnaðarmenn, grafískir hönnuðir, sölumenn, bændur og aðrir slíkir. Hjá flestum þessum aðilum hefur verkefnum fækkað verulega og í sumum greinum er jafnvel talað um algert hrun. Ef svo vill til að reksturinn hefur krafist einhvers konar tækjakaupa þá vitum við að mjög margir voru með öll tæki og vélar á myntkörfulánum og þau lán hafa í mörgum tilfellum tvöfaldast á sama tíma og tekjur hafa dregist verulega saman.

Greiðsluaðlögun sú sem ríkisstjórnin kom á hefur verið nefnd bómullargjaldþrot. Ég mundi vilja haga málum þannig að færri þyrftu á slíku úrræði að halda en greiðsluaðlögunin sem slík á rétt á sér og er mjög mikilvægt úrræði. Mér finnst það mikið réttlætismál að allir einstaklingar geti nýtt sér þetta úrræði, ekki aðeins launþegar. Fjármál minni rekstraraðila eru oft samofin fjármálum heimila þeirra. Kannski er það ekki æskilegt en þannig er það samt og við því verðum við að bregðast.

Á Norðurlöndunum er að finna fyrirmyndina að greiðsluaðlöguninni. Þar geta einyrkjar eða einstaklingar í rekstri ekki heldur farið í greiðsluaðlögun. Það getur vel verið að það sé ágætt að hafa það þannig við venjulegar aðstæður en nú eru kringumstæður allt annað en venjulegar og við þurfum að taka tillit til þess. Forsendubresturinn er alger og fólk gat ekki vitað í hvað stefndi. Mér finnst mjög mikilvægt að frumvarpið fái framgöngu og vona að hv. allsherjarnefnd taki vel í þetta.