138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

kynjuð hagstjórn.

418. mál
[15:11]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hv. þm. Eygló Harðardóttir skuli taka þetta mál upp. Sú er hér stendur flutti fyrirspurn af þessu tagi til þáverandi fjármálaráðherra, Geirs Haarde, á sínum tíma. Á þeim tíma voru menn að byrja að feta sig inn á þá braut að fara inn í kynjaða fjárlagagerð og litu nokkuð til Noregs í því sambandi. Ég vil nota tækifærið hér og hvetja hæstv. fjármálaráðherra áfram á þessari braut.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, að þetta er ný hugsun. Ég veit að það gengur mjög mikið á í fjárlagagerðinni um þessar mundir en ég held að við megum alls ekki slá af þeim dampi sem þarf að vera í sambandi við að ná fram kynjaðri fjárlagagerð. Það þarf að skoða kynjasjónarmiðin þegar fjárlög eru ákveðin. Fjárlögin eru þyngsta og mikilvægasta pólitíska stefnumál hvers þings. Með fjárlögum eru línur lagðar þannig að ég vil nýta tækifærið og hvetja hæstv. fjármálaráðherra áfram að koma á kynjaðri fjárlagagerð.