138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

kynjuð hagstjórn.

418. mál
[15:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans og hv. þingmönnum Þórunni Sveinbjarnardóttur og Siv Friðleifsdóttur fyrir þeirra framlag. Ég fagna því virkilega að þetta sé komið af stað og eins og ráðherra talaði um, að búið væri að taka ákvörðun og senda út bréf um það að hvert eitt ráðuneyti mundi velja eina stofnun til að fara í svona tilraunaverkefni. Ég skal hins vegar viðurkenna að ég er stundum óþolinmóð og bráðlát og ég hefði gjarnan viljað sjá það að ráðherra hefði kannski hugsað aðeins stærra í þessu máli og ekki sagt bara til um eina stofnun.

Þá stoppa ég líka við, eins og ég nefndi í framsögu minni, að ég sit í menntamálanefnd og þar eru mjög stórar stofnanir undir eins og t.d. Háskóli Íslands, það væri mjög áhugavert að sjá hvernig þeir gætu framfylgt kynjaðri hagstjórn í sinni vinnu. Í menntamálanefnd er einmitt þingsályktunartillaga flutt af þingmönnum Vinstri grænna og mig minnir endilega að það séu Auður Lilja Erlingsdóttir og Ólafur Gunnarsson sem eru flutningsmenn tillögunnar. Hún fjallar um að reyna að jafna hlut kynja í námi og hvort hugsanlega væri hægt að nota Lánasjóð íslenskra námsmanna til að ívilna þeim sem hefðu áhuga á því að fara í nám þar sem væri mjög hátt hlutfall hins kynsins. Við getum tekið sem dæmi ljósmæðranám þar sem eru meira og minna bara konur — ég veit ekki til þess að nokkur einasti karlmaður sé starfandi sem ljósfaðir, og síðan öfugt í greinum þar sem karlmenn stjórna, þar fengju konur ívilnun.

En ég vil hins vegar í lokin benda á að ríkisendurskoðandi kom með þá ábendingu, fyrst ráðherra fór inn á það, að líka ætti að auglýsa tímabundnar ráðningar. Það mætti kannski hafa það í huga. Ég fagna því að við ætlum að gera þetta á aðeins styttri tíma en Finnar en tel samt að ráðherrann gæti gert kannski aðeins meira en hann talaði um.