138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

vistvæn innkaup.

428. mál
[15:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Það getur verið ánægjulegt að bera fram nokkrar fyrirspurnir á sama ráðherra, þá getur maður fylgt því eftir sem hæstv. ráðherra sagði í lokaorðum sínum.

Ég vil benda á að hjá flestum teljast fimm ár ekki vera „tímabundið“ eða „skammtíma“ og það kom fram í svari ráðherra varðandi kynjuðu hagstjórnina að þetta væri fimm ára verkefni þannig að það hlýtur að vera þá einhver sem ætlar að sinna þessu verkefni í fimm ár.

Nú skulum við fara í næstu fyrirspurn sem ég er með og hún er um vistvæn innkaup. Spurningin er einföld:

„Hvernig hefur stefna ríkisstjórnarinnar um vistvæn innkaup, sem samþykkt var í mars 2009, verið innleidd hjá fjármálaráðuneytinu?“

Eins og með fyrri fyrirspurn mína hefur ráðuneytið eða undirstofnanir ráðuneytisins gefið út mjög góða stefnumörkun varðandi vistvæn innkaup og nú nýlega var haldin mjög áhugaverð ráðstefna þar sem fjallað var um það hvernig hægt væri að innleiða vistvæn innkaup. Ríkið er mjög stór aðili hvað varðar kaup á vörum, ég held að það séu um 100 milljarðar á ári sem ríkið hefur til ráðstöfunar til að kaupa alls konar vörur og þjónustu. Sett voru fram markmið um að árið 2012 ættu, held ég, um 80% af öllum útboðum að vera með vistvæn eða umhverfisvæn skilyrði. Það væri því mjög áhugavert að heyra frá ráðherranum, fyrst við vorum að tala um kynjaða hagstjórn, hvort þessi rauðgræna ríkisstjórn ætti ekki líka að setja sér markmið um að vera með kynjaða og vistvæna hagstjórn.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvar maður getur séð þetta og komið með dæmi um það hvernig þessi stefna um vistvæn innkaup hefur verið innleidd. Við í viðskiptanefnd urðum aðeins vör við þetta að inn kom ein lítil sæt setning í eigendastefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart bönkunum, um það að bankarnir ættu að huga að vistvænum innkaupum. Ég spyr líka hvort einhverjar breytingar að ráði hafa orðið síðan þessi ríkisstjórn tók við. Að lokum, þó að það sé ekki í fyrirspurninni sem ég lagði fram, spyr ég hvernig ráðherra sér fyrir sér að við getum útvíkkað þetta þannig að við séum ekki bara að tala um vistvæn innkaup heldur hvernig við getum í meira mæli tryggt að húsnæði sem ríkið á og rekur sé vistvænt, hvernig við sem störfum á Alþingi getum betur orðið vör við það að við völd sé ríkisstjórn sem er með græna stefnu og annað það sem ráðherranum dettur í hug að svara mér hvað varðar þessa fyrirspurn.