138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

vistvæn innkaup.

428. mál
[15:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Svo að ég blandi þessu örlítið saman má segja að við séum að ræða hér sumpart skylt verkefni því sem ræddum áður, þ.e. spurningu um fræðslu og uppeldi og ferli sem tekur sinn tíma og þarf að nálgast sem slíkt. Það stekkur ekki alskapað fram á einum degi vegna þess að það eru svo margir sem þurfa að innleiða það í daglegum athöfnum sínum og ákvörðunum.

Allt frá árinu 2002 hefur fjármálaráðuneytið leitast við að fara eftir þessum markmiðum og leiðbeiningum sem settar eru fram í innkaupastefnu ríkisins og samþykktar voru af ríkisstjórn Íslands það ár. Grunnur þeirrar innkaupastefnu byggir á því að ávallt skuli leitast við að gera hagstæðustu innkaup þar sem leitast er við að hámarka ávinning innkaupa jafnframt því að lágmarka kostnað. Í stefnunni segir m.a. að við innkaup skuli tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Þetta er nánar útfært og miklu nánar útfært nú í sérstakri stefnu um vistvæn innkaup ríkisins sem fjármálaráðherra og umhverfisráðherra undirrituðu 27. mars 2009. Þeirri stefnu hefur m.a. verið fylgt eftir með ráðstefnu sem fjármálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið stóðu fyrir 5. mars sl.

Vistvæn innkaup snúast ekki aðeins um virðingu fyrir umhverfinu sem slíku í þröngum skilningi heldur einnig um hagkvæmni og sjálfbærni þegar horft er til langs tíma. Innkaupin sjálf eru aðeins upphafið að löngu ferli. Þau fela í sér margs konar ávinning fyrir kaupendur, birgja og samfélagið allt. Til dæmis draga vistvæn innkaup úr umhverfisáhrifum, þau geta minnkað kostnað, aukið gæði, aukið vistvæn innkaup, þannig að framboð á slíkum vörum vex og markaður myndast fyrir þær og það er þjónusta sem nýtist samfélaginu í heild. Þannig munu fjölmargir aðrir njóta góðs af í leiðinni þegar ríkið ryður brautina í þessum efnum ásamt með t.d. stórum sveitarfélögum sem mörg hver eru sömuleiðis að taka á í þessum efnum.

Í stefnu ríkisins um vistvæn innkaup er fjallað um hvernig samþætta á umhverfissjónarmiðin innkaupum hjá ríkinu almennt. Íslenska ríkið kaupir vörur, þjónustu og verk fyrir meira en 100 milljarða kr. á ári hverju. Með því að hafa umhverfissjónarmiðin til hliðsjónar við þessi innkaup getur ríkið komið mjög miklu til leiðar í umhverfismálum. Með skýrum kröfum um umhverfissjónarmið stuðlar ríkið að því að markaður bjóði fram nýja og betri valkosti til að mæta kröfum um minna álag á umhverfið.

Þar sem vitund manna um að vernda þurfi umhverfið eykst ár frá ári um heim allan getur þessi stefna leitt af sér bættari samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja sömuleiðis á alþjóðavettvangi bregðist markaðurinn við kröfum ríkisins um umhverfisvænni valkosti. Það sama er að gerast í öðrum löndum og við getum átt sóknarfæri í þessu eins og fleiru. Hagsmunir ríkisins og einkamarkaðarins og þar með samfélagsins alls fara tvímælalaust saman þegar kemur að því að taka aukið tillit til umhverfisins við opinber innkaup. Samkvæmt markmiðum ríkisstjórnarinnar verða umhverfisskilyrði sett í 60% útboða á vegum ríkisins á næsta ári og 80% útboða árið 2012.

Í stefnunni um vistvæn innkaup kemur fram hversu mikilvægt er að greina raunverulega þörf og einblína ekki á ákveðna vöru heldur á virkni hennar. Vistvæn innkaup snúast nefnilega ekki alltaf um að kaupa vistvænar vörur heldur geta þau snúist um að draga einfaldlega úr innkaupum eða velja aðrar leiðir. Það eru líka vistvæn innkaup að átta sig á því að sumu geta menn einfaldlega sleppt. Innleiðing fjármálaráðuneytisins á stefnu ríkisstjórnarinnar um vistvæn innkaup hefur einkum snúið að þessum mikilvæga þætti. Undanfarið hefur ráðuneytið sjálft þurft að grípa til niðurskurðar í rekstri eins og aðrir og m.a. gert það með samdrætti í innkaupum á rekstrarvörum. Auk þess hefur rík áhersla verið lögð á betri nýtingu vara en áður. Þetta hefur leitt til almennrar umhverfisvakningar meðal starfsmanna. Einnota umbúðir og rafhlöður hafa verið flokkaðar um árabil og í haust var tekið upp nýtt fyrirkomulag sorplosunar sem felur í sér að komið var upp endurvinnslufötum víðs vegar um ráðuneytið. Nær öllum pappír sem fellur til og má henda er fleygt í þessar fötur. Það er dregið almennt úr pappírsnotkun, starfsfólk hefur verið sérstaklega hvatt til þess að prenta ekki nema það sem nauðsynlegt er og prenta þá að sjálfsögðu báðum megin á síðurnar eins og ég var að sýna með því að lesa hér báðum megin af þessu blaði.

Þá er sömuleiðis hafinn undirbúningur að því — sem er mikilvægt — að sækja um til Þjóðskjalasafns Íslands um rafræn skil á gögnum. Í slíku eru fólgnir miklir möguleikar til að spara prentun og pappírsnotkun. Fjármálaráðuneytið ætlar sér að fylgjast grannt með því starfi sem er unnið að almennt varðandi innleiðingu stefnu um vistvæn innkaup sem hluta af innkaupastefnu ríkisins og efla greiningu á eigin innkaupum og fylgjast með innkaupum annarra og leggja þannig traustan grunn að árangri í þessum málum almennt.