138. löggjafarþing — 122. fundur,  12. maí 2010.

vistvæn innkaup.

428. mál
[15:26]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil í þessu máli eins og í hinu fyrra hvetja hæstv. fjármálaráðherra áfram. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að innleiða þennan hugsunarhátt með vistvæn innkaup og ég heyri að hæstv. fjármálaráðherra er hér að nefna töluleg markmið sem menn ætli að ná í prósentum varðandi það. Það er hægt að gera margt mun betur en nú er gert og ég get nefnt það hér að á Alþingi hafa menn stigið nokkur ágæt skref í þessum málum. Sem dæmi get ég nefnt að á sínum tíma voru öll skjöl prentuð fyrir alla þingmenn og þeim var dreift á öll borð. Núna er það ekki gert, nú eru skjöl bara sett fram í rekkann þannig að það sparast alveg gríðarlegur pappír, en það er örugglega hægt að gera betur.

Ég heyrði að hæstv. ráðherra var að tala um að hann hefði lesið af blaðinu báðum megin. Best er auðvitað að tala blaðalaust, en það er kannski ekki alltaf hægt. Ég vil hvetja hæstv. fjármálaráðherra áfram á þessari braut, að ná þessum tölulegu markmiðum og enda helst í 100% vistvænum innkaupum.