138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að lýsa mig algerlega ósammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um að það mál sem hann nefndi sé ekki þingtækt. Í fyrsta lagi er búið að dreifa því, ég lít svo á að forseti hafi með því fallist á að það væri þingtækt. Í öðru lagi flutti hv. þingmaður engin rök fyrir því að málið væri ekki þingtækt, heldur sagði bara að það væri augljóst að það væri það ekki. Í mínum huga er það alls ekki augljóst. Ég kalla því eftir því að þingmaðurinn rökstyðji mál sitt með einhverjum hætti.

Að bera það saman við það að Alþingi mundi senda einhverjum skrifstofustjórum í ráðuneytum einhver fyrirmæli er auðvitað allt annað mál. Hér er um að ræða mál sem varðar Alþingi sjálft þannig að ég tel það fyllilega þingtækt og tel eðlilegt að það sé sett á dagskrá hið fyrsta til að Alþingi geti þá rætt efnisatriði þess og hugsanlega komist að niðurstöðu um hvort við samþykkjum tillöguna eða ekki.