138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:40]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst svolítið merkilegt að það er ekki búið að skoða hvort málið sé þingtækt. Ég ítreka að ég þori ekki sjálf að kveða upp úr með það á þessari stundu. En það eru ákvæði í stjórnarskránni um að Alþingi sé friðheilagt og hvorki megi raska friði þess né frelsi. Hver einasti þingmaður sem hér er inni hefur svarið eið að stjórnarskránni þannig að þetta er vandmeðfarið. Samt er þetta mál komið í form þingmáls frá hv. þm. Birni Val Gíslasyni og það er komið inn í dómstólana frá ríkissaksóknara.

Þegar þessi atburður átti sér stað vildi þannig til, og er bara alger tilviljun, að sú er hér stendur var í pontu og það þurfti að stöðva þingfund þannig að þingstörfum var raskað. Auðvitað var mjög erfitt ástand í samfélaginu á þessum tíma, það vita allir. En verðum við ekki bara að bíða þess að dómarar komist að niðurstöðu (Forseti hringir.) og vona að þeir komist að réttlátri niðurstöðu í þessu máli? Af því að málið er svo snúið tel ég að það verði að skoða það sérstaklega áður en það kemur til umræðu.