138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Allt frá því að fregnir bárust af því að þessi þingsályktunartillaga væri væntanleg inn í þingið hef ég verið mjög hugsi yfir því hvert við erum komin og hvernig þingmenn á Alþingi hugsa um hvernig lýðræðissamfélag okkar á að virka. Á þingið að fara að segja fyrir um það í hvaða málum má leggja fram ákærur og í hvaða málum ekki? Við erum þá komin á mjög hættulega braut og ég tel að framlagning þessa máls sé þeim þingmönnum sem að því standa til minnkunar og sé síst til þess fallin að efla virðingu Alþingis.

Vegna orða hæstv. forseta áðan langar mig einfaldlega að beina einni spurningu til hæstv. forseta: Er fyrirhugað að forseti láti fara fram sérstaka könnun á því hvort þetta mál sé þingtækt? Það væri öllum fyrir bestu ef það yrði upplýst.