138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ákaflega sérstakt mál. Ég rifja upp í þessari umræðu ummæli hæstv. heilbrigðisráðherra þegar þessi mótmæli stóðu sem hæst. Hún sagði á göngum Alþingis að henni fyndist allt í lagi að þetta fólk kæmi inn í Alþingishúsið og bryti hér allt og bramlaði. Þetta sagði hún í minni áheyrn hérna frammi. Þetta frumvarp er í anda þess að Vinstri grænum finnst allt í lagi að fólk fari um Alþingishúsið og brjóti allt og bramli, þetta séu hvort eð er dauðir hlutir hér. Þetta er sú virðing sem þetta fólk ber fyrir Alþingi og endurspeglast í þessari tillögu.

Að gefnu tilefni, virðulegi forseti, að öðru máli, ég var áminntur í ræðustól fyrr í þessari viku fyrir að nota orðið „skemmdarverk“. Ég hef flett því upp á vef þingsins hversu oft þetta orð hefur verið notað í ræðum á þingi og það hefur verið mjög oft í gegnum tíðina, ekki síst af þingmönnum Vinstri grænna, þeirra sem ég beindi kannski helst orðum mínum til í þessu tilfelli. Ég fer fram á það (Forseti hringir.) að ef virðulegur forseti ætlar að breyta hér venjum og notkun orða í umræðunni (Forseti hringir.) gefi hún út sérstaka orðabók þannig að þingmenn geti áttað sig á því hvað er nýtt á ferðinni hérna.