138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

þingsályktunartillaga um ákæru á hendur mótmælendum.

[10:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að mótmæla harðlega ummælum hv. þm. Jóns Gunnarssonar um að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs telji allt í lagi að hver sem er komi í þinghúsið og brjóti allt og bramli (JónG: Það var …) og ég hvet hv. þingmann til að biðjast afsökunar á þessum ummælum (Gripið fram í.) því að þau eiga ekki við nokkur rök að styðjast.

Ég vek athygli á því að í svari forseta Alþingis við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur um ákæru vegna atburða í Alþingishúsinu á þskj. 1069 segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Að mati forseta er augljóst að skrifstofustjórinn var bær til að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort óskað yrði eftir rannsókn á atvikinu. Til þess þurfti hann hvorki atbeina forseta né annarra eins og ýjað er að í spurningunni.“

Það er auðvitað ástæða þess að fyrirspurnin er orðuð með þeim hætti og því beint til Alþingis að fela skrifstofustjóra athugunina. Ég vek líka athygli á því að í tillögunni er ekki gert ráð fyrir að draga allar ákærur til baka, m.a. ekki þær sem lúta að líkamsmeiðingum þar sem starfsmenn Alþingis áttu í hlut. Menn ættu að sjálfsögðu að skoða efni tillögunnar.