138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:15]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn liggur í því að ákvörðun um að leggja fram aðildarumsókn var bara liður í pólitískum hrossakaupum við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Samfylkingin fékk það inn í stjórnarsáttmálann að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu, Vinstri grænir fengu ýmislegt annað eins og t.d. það að leggja ætti niður nýstofnaða Varnarmálastofnun. Pólitíska forustuleysið í Evrópusambandsmálinu er auðvitað æpandi. Það er vandræðalegt þegar við hittum fulltrúa þeirra 27 aðildarríkja sem heimsækja okkur og spyrja hvort það sé ekki örugglega skýr og traust pólitísk forusta fyrir þessu, þegar við fulltrúar í utanríkismálanefnd sitjum andspænis þessum mönnum. Auðvitað lítur þetta allt út eins og dyraat þegar ekki er skýr forusta í ríkisstjórninni, þegar fjölmargir þingmenn sem greiddu hér á sumarmánuðum síðasta árs atkvæði með aðildarumsókninni hafa núna stigið fram og sumir þeirra hafa jafnvel aldrei verið meiri andstæðingar Evrópusambandsaðildar. (Forseti hringir.) Það er vandi málsins, þetta er það sem við (Forseti hringir.) gerðum að umtalsefni á sínum tíma og þetta er ástæðan fyrir því að fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar telur að að hætta eigi við allt saman.