138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það lá alveg skýrt fyrir hvað það var sem ríkisstjórnin ætlaði sér. Hún ætlaði sér að nota leið þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að skera úr um þetta deilumál sem lengi hefur verið meðal þjóðarinnar. Það lá t.d. alveg ljóst fyrir hver var afstaða tiltekinna þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ef ég má rifja það upp fyrir hv. þingmanni sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson það t.d. algjörlega skýrt að hann teldi sig á þeirri stundu vera andsnúinn Evrópusambandinu en hann sagði: Það er mín lýðræðislega löngun að þjóðin fái eigi að síður tækifæri til þess að greiða um þetta atkvæði.

Ég er þeirrar skoðunar að við Íslendingar séum í miklum erfiðleikum eftir hrunið og við verðum að hafa skýra stefnu um það hvert við ætlum að fara. Þetta er skýr framtíðarsýn, þetta er valkostur fyrir þjóðina. Ég mun ljúka því sem Alþingi fól mér og síðan fær (Forseti hringir.) þjóðin tækifæri til þess að kveða upp úr um það hvort hún kýs að fara þessa leið.