138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:18]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það vakti athygli mína í ræðu hæstv. ráðherra að hann vék ekkert að kostnaðinum við ESB-umsóknarferlið né heldur kostnaðinum af aðildinni sjálfri.

Það vakti líka athygli mína í skýrslunni hversu lítið er fjallað um þessi mál og það vakti enn fremur athygli mína í skýrslunni að fjallað er um kostnaðinn á grundvelli kostnaðarmats utanríkisráðuneytisins sem fylgdi með meirihlutaáliti utanríkismálanefndar í fyrra. Það var ekkert fjallað um athugasemdir fjármálaráðuneytisins með sömu kostnaðaráætlun, það var ekkert fjallað um upplýsingar sem komu fram í annars ítarlegu svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni um daginn þar sem skein í gegnum mörg orð hversu mikil óvissa er í kostnaðaráætluninni og hversu algjörlega kristaltært það er að þetta verður meira en sá milljarður sem um er rætt.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Af hverju leggur utanríkisráðherra ekki spilin á borðið og segir íslenskum almenningi hversu mikið þetta bjölluat í Brussel mun kosta íslenska þjóð?