138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:20]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur líka komið fram að skilyrði fyrir þessum 6 milljarða styrk Evrópusambandsins er 6 milljarða mótframlag íslensku þjóðarinnar. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna lætur hann þess ekki getið að þá er þessi milljarður allt í einu orðinn 7 milljarðar af reikningskúnstum hæstv. ráðherra að dæma?

Síðan vil ég líka einfalda fyrirspurn mína til hæstv. ráðherra. Þetta snýst um það hversu mikið íslenski skattgreiðandinn greiðir fyrir þetta ferli. Í fyrirspurn minni til hæstv. ráðherra spurði ég t.d. hvort það væri ekki öruggt að ferðir ráðherrans væru inni í þessum áætlunum. Því var svarað: Að sjálfsögðu er það ekki inni í þessum áætlunum enda greitt af ferðafé ráðherra.

Bíddu, hver borgar ferðafé ráðherra? Er það hæstv. ráðherra sjálfur sem dregur upp veskið í hvert skipti sem hann ferðast á vegum íslenska ríkisins? Að sjálfsögðu ekki. Þetta snýst um það að íslenskir skattborgarar greiða fyrir þetta með einum eða (Forseti hringir.) öðrum hætti og eiga þess vegna rétt á því að það sé tala neðst sem segir: Samtals 7 milljarðar. Ekki milljarður.