138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að sú aðlögun sem hefur þegar átt sér stað á ýmsum lagabálkum vegna veru okkar eða þátttöku í EES-samningnum hafi verulega bætt íslenskan rétt að mörgu leyti. Ég tel að sú aðlögun sem fer fram í þessari vinnu og kann hugsanlega að leiða til lagabreytinga hér sé líka gerð með það fyrir augum að það muni nýtast Íslendingum, þ.e. að hún muni bæta réttarstöðuna eftir þær breytingar.

Hv. þingmaður er kannski að velta því fyrir sér hvort við séum að fara að ráðast í einhverjar lagabreytingar sem t.d. varða einhverjar stofnanir sem þyrfti að setja upp vegna aðildar okkar að ESB og svo kæmi í ljós allt í einu að við mundum ekki ganga í ESB. Það er hægt að haga því með þeim hætti að af því hljótist engar afleiðingar sem hv. þingmaður þarf að tapa svefni yfir, t.d. hvað varðar gildistöku og annað.