138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[11:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Munurinn á mér og hv. þingmanni er kannski sá að ég treysti ekki bara kvenfélaginu og kaupfélaginu heldur fólkinu í landinu. Ef hv. þingmaður hefur rétt fyrir sér með að þetta hafi í för með sér mikla galla og neikvæðar afleiðingar fyrir Ísland, treystum við þá ekki þjóðinni til að kveða upp úr með það? Eigum við ekki að treysta þjóðinni? Er það ekki krafan á þessum tímum, lýðræði og að fólkið fái að velja? Það eina sem ég geri, en hv. þingmaður átti væntanlega við að ég væri sá aðili sem stýrði þessu í einhverri blindni — mitt hlutverk er að koma heim með samning og reyna að sjá til þess að hann verði eins hagfelldur Íslendingum og hægt er. Síðan er það þjóðarinnar að meta það á grundvelli allra gagna sem fyrir liggja og hún kveður upp sinn úrskurð. Hugsanlega hefur hv. þingmaður rétt fyrir sér að þetta verði bara handónýtur samningur og við getum ekkert með hann gert en þá verður það fellt og ég fæ stórt spark í minn mjúka afturenda. Ef niðurstaðan verður önnur verður þetta samþykkt (Forseti hringir.) og ég tel að það muni hafa verulega jákvæða hluti í för með sér fyrir hina hagsýnu húsmóður og alla aðra.