138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég þekki það hvernig er að vera í stórum flokki og menn hafa ólíkar skoðanir. En þegar þetta er eitt stærsta stefnumálið sem Vinstri grænir fara fram með, eins og flokkurinn gerði í síðustu kosningum, er ekki að furða þó kjósendur þeirra hafi unnvörpum samband við m.a. þá sem hér stendur, til að reyna að átta sig á því hvað flokkur hv. þingmanns er að hugsa. Það er einfaldlega það sem ég er að reyna að komast til botns í svo ég geti reynt að útskýra þetta fyrir þessu vonsvikna fólki og kjósendum þess flokks.

Er það rétt að utanríkismálanefnd hafi sagt í meirihlutaáliti sínu, að það hafi átt að hafa samráð við hana um svörin við spurningum ESB? Það hefur hins vegar ekki verið gert. Það hefur heldur ekki verið tekið jákvætt í það að spurningalistarnir frá ESB eru þýddir á íslensku. Er þetta eitthvað sem Vinstri grænir eru sáttir við að hafa gert? Er ekki einfaldlega svo að Vinstri grænir hafi falið utanríkisráðherra alfarið að ganga frá þessu máli? Það er í rauninni ekkert formlegt samráð haft við Alþingi í málinu. Það er utanríkisráðherrann sem fer með þetta. Ég sé ekki að það sé í samræmi við orð vinstri grænna. Vinstri grænir hafa svikið orð sín í þessu máli.