138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að gefa einstaklingum sérstaka einkunn, eins og hv. þingmaður var að ætlast til í fyrstu fyrirspurn sinni. Ég tel mikilvægt að þessi mál, eins og öll önnur, séu rædd á grundvelli röksemda með og móti. Í þessu máli, Evrópusambandsmálinu, eru að sjálfsögðu margvísleg rök fyrir Evrópusambandsaðild, önnur veigamikil sem tala gegn Evrópusambandsaðild, og ég tel að þeim megi tefla fram í umræðunni og allir eigi að gera það.

Varðandi kostnaðinn finnst mér líka komið fram með hluti sem eru ekki sannleikanum samkvæmir. Það fylgir auðvitað kostnaður aðildarviðræðunum og það var Alþingi meðvitað um þegar það tók ákvörðun um að hefja þetta ferli. Ekki er heldur hægt að ganga út frá því að ferlið muni kosta um 6 milljarða. Sumar af þeim fjárveitingum sem þarna er um að ræða eru bundnar mótframlögum en það á ekki við um alla þætti málsins.