138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil einbeita mér að þeirri spurningu sem ég náði ekki að svara síðast og varðar loftrýmisgæsluna og varnarmálalögin. Ég verð að vísu að upplýsa að ég var illu heilli ekki viðstaddur þegar umræðan um varnarmálalögin fór fram þannig að mér er ekki alveg ljóst hvaða orð féllu þar. Í ræðu minni hér áðan vakti ég einfaldlega athygli á því sem stendur í samstarfsyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnarflokka um loftrýmisgæsluna þar sem vísað er í skýrslu áhættumatsnefndar sem hæstv. ráðherra gerði grein fyrir og ég veit að hann ber mikla virðingu fyrir. Mér finnst því líklegt að við munum fara yfir þau mál á vettvangi utanríkismálanefndar í umfjöllun okkar um varnarmálafrumvarpið. Sjálfur ætla ég ekki að draga dul á að ég tel þessa loftrýmisgæslu algerlega tilgangslausa og það eigi að hætta henni en það er hlutur sem við hljótum að ræða í tengslum við umfjöllun okkar um þetta varnarmálafrumvarp.