138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að flokkakerfið á svolítið bágt í þessu máli og menn eru í skotgröfum milli flokka og innan flokka um hvort sækja eigi um aðild að ESB eða ekki og hvort það sé gott að vera þar inni eða ekki. Þess vegna langar mig að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar: Nú er Alþingi búið að samþykkja aðildarumsókn og aðildarviðræður eru alveg að fara að hefjast. Þetta er heilmikið ferli. Telur hv. þm. Árni Þór Sigurðsson ekki næsta víst að þjóðin fái að greiða atkvæði um niðurstöðu aðildarviðræðna og að ekkert geti úr þessu stoppað það nema eitthvað stórfenglegt komi upp á sem við sjáum ekki fyrir í dag? Nú er ferlið að hefjast. Er ekki nokkuð ljóst að þingið fer ekki að grípa inn í og stoppa þetta ferli nema eitthvað mjög óvænt komi upp á? Er ekki næsta víst (Forseti hringir.) að almenningur fái að kjósa um niðurstöður aðildarviðræðnanna?