138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:19]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég er þeirrar skoðunar að þjóðin eigi að fá að taka endanlega ákvörðun í þessu máli. Það var það sem var lagt upp með þegar málið var lagt fyrir þingið, það kom fram í okkar ræðum og það kemur fram í niðurstöðu meiri hluta utanríkismálanefndar. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé það sem eigi að gera. Í því ferli sem síðan hefur átt sér stað frá því að Alþingi tók þessa ákvörðun hef ég styrkst í þeirri sannfæringu að það sé mikilvægt að þjóðin fái þetta tækifæri og að hún hafi nákvæmlega í hendi og viti um hvað þetta mál snýst, algerlega frá A til Ö. Þess vegna tel ég mig skuldbundinn þeirri samþykkt sem Alþingi gerði. Alþingi tók ákvörðun um að hefja þetta ferli og ég tel að við eigum öll að leggja okkur fram um að gæta íslenskra hagsmuna í hvívetna í því ferli þannig að þjóðin hafi sem besta kosti til þess að velja um og hvorn kostinn sem hún velur (Forseti hringir.) þegar upp er staðið sé það skref heillavænlegt fyrir íslenska framtíð.