138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða skýrslu og jafnframt fyrir að leggja til að það verði þverpólitísk samvinna um mótun varnar- og öryggismálastefnu landsins. Við þurfum reyndar kannski ekki að flýta okkur mikið í þá umræðu. Ég held að Eyjafjallajökull sjái um þetta fyrir okkur á næstu missirum.

Margt ber á góma í þessari viðamiklu skýrslu og ógjörningur er að fjalla um allt það sem ég hefði viljað spjalla um þannig að um heildstæða umræðu sé að ræða. Mér eru einkar hugleikin tvö mál sem heyra undir hæstv. utanríkisráðherra og er fjallað um í þessari skýrslu. Þar ber fyrst á góma Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og inngönguferli í Evrópusambandið. Hæstv. utanríkisráðherra er umhugað um vilja þjóðarinnar varðandi inngöngu í Evrópusambandið og því liggur beint við að hann styðji frumvarp Hreyfingarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem tryggt er að ákveðinn hluti þjóðarinnar geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni er skipta hana miklu máli.

Nú hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þingið ákvað að leggja í umsóknarferðalagið mikla og ljóst er að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill ekki fara í þetta ferli á þessum tímapunkti. Þá hefur jafnframt komið í ljós að þeir sem litu hýru auga til evrunnar sem lausnar á fjármálum þjóðarinnar verða víst að leita annarra lausna því bæði stendur evran verulega höllum fæti og einnig er einsýnt að við uppfyllum ekki þau skilyrði sem kennd eru við Maastricht til að fá að taka upp þennan gjaldmiðil ef okkur hugnast svo.

Ég hef alltaf verið talsmaður þess að skynsamlegt væri að taka til í okkar eigin ranni áður en við förum í inngönguferli í Evrópusambandið. Við horfum fram á mikinn niðurskurð og hagræðingu á grunnþjónustu samfélagsins og áframhaldandi langtímaatvinnuleysi á næstu árum. Því finnst mér ekki skynsamlegt að fara út í aðlögun að Evrópusambandinu á slíkum tímum því hún kallar á mikil fjárútlát sem og athygli starfsmanna stjórnsýslunnar sem betra væri að beindist að þeim bráða vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Frú forseti. Ég kalla eftir því að hæstv. utanríkisráðherra láti fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort draga eigi umsóknina um ESB til baka og að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla eftir nokkur ár, ef við viljum, um hvort þjóðin vilji fara í þetta ferli og verða hluti af Evrópusambandinu. Það er vel hægt að nota tímann fram að þjóðaratkvæðagreiðslu til að fræða þjóðina um hvað innganga felur í sér, bæði kosti hennar og galla. Það er líka eðlilegt að sjá hvað mun gerast varðandi Evrópusambandið en síðast í gær hélt Angela Merkel því fram að ef evran hryndi mundi Evrópusambandið líða undir lok.

Það er alveg ljóst að þetta er ekki besta tímasetning sem hægt er að hugsa sér til að fara út í svo viðamikið verkefni. Einbeitum okkur að þeirri tiltekt sem hér þarf að fara fram. Það er mjög brýnt að þjóðin fái beina aðkomu að stjórnlagaþingi. Við þurfum að fá tækifæri til að móta okkar sýn á það í hvernig samfélagi við viljum búa og ný stjórnarskrá er mikilvægur þáttur í uppbyggingu á landinu og þeirri ímynd sem hrundi með hinu algera hruni, efnahagslega og siðferðislega. Einbeitum okkur að því hvernig við getum fundið leið út úr samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, því allir vita sem þekkja til sjóðsins að það prógramm sem hann krefst að ríkisstjórnin fylgi er ekki til þess fallið að sú tæring sem þegar má merkja í grunnstoðum samfélagsins valdi því ekki að það falli hreinlega saman.

Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að nýta sinn frjóa huga til að koma til liðs við okkur hér á þinginu sem höfum kallað eftir öðrum leiðum en að vera í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég vil að lokum þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir gott samstarf við utanríkismálanefnd og vona að hann hlusti eftir því sem kallað er eftir í samfélaginu varðandi Evrópusambandsumsóknina, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Icesave.