138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil líka þakka hv. þingmanni fyrir mjög gott samstarf að utanríkismálum. Ég legg alltaf eyrun við og hlusta grannt þegar hv. þingmaður tjáir sín sjónarmið vegna þess að þau eru oft öðruvísi en annarra og það er svoleiðis fólk sem maður þarf að hlusta á.

Ég held að það sé einn misskilningur í máli og skilningi hv. þingmanns á Evrópusambandinu. Hv. þingmaður telur að vegna erfiðleikanna sem við eigum við að etja núna sé rétt að leggja umsóknina til hliðar og beita, eins og hún sagði, mannafla stjórnsýslunnar í að greiða úr þeirri flækju sem efnahagsöngþveitið hefur skapað. Nú er það þannig að þeir starfsmenn utanríkisráðuneytisins, Matvælastofnunar, Umhverfisstofnunar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis að hluta til og aðrir sem báru hitann og þungann af því t.d. þegar menn svöruðu hinum viðamiklu spurningum Evrópusambandsins komu ekki mikið að því, þeirra starf liggur annars staðar. Það fólk sem vinnur af stjórnsýslunnar hálfu að því að greiða úr efnahagsöngþveitinu er ekki tekið til þessarar vinnu.

Að því er varðar kostnaðinn þá er hann sáralítill miðað við þann mögulega ávinning sem felst í aðild og mér finnst það vera mjög rangt af hv. þingmanni að bera þau rök fram. Það sem skiptir þó kannski máli, af því að ég veit að hv. þingmanni er umhugað um fólk og þá sem hafa lent í því að hafa ekki atvinnu, sem er kannski mesta böl sem nokkur getur lent í — þá verður hún að horfa til þess að ein leiðin til þess að skapa störf, og ég þekki enga sem er jafnfljótleg til þess, er að ganga í Evrópusambandið, koma á þeim stöðugleika sem því fylgir og fá fjárfestingu hingað til þess að búa til þessi störf. Það er það sem ég er að hugsa um og kom fram í ræðu minni. Störf á Íslandi skipta mjög miklu máli og ég held að aðild að Evrópusambandinu gæti skipt ákaflega miklu við að byggja upp nýjar atvinnugreinar á næstu árum. Hv. þingmaður hefur þó fullan rétt (Forseti hringir.) til þess að vera annarrar skoðunar en þetta er mín skoðun og ég er henni trúr. Þess vegna fylgi ég þessu eftir af þeirri hörku sem (Forseti hringir.) hv. þingmanni finnst kannski of mikil.