138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir örræðuna. Ég greindi engar beinar spurningar í andsvari hans en hjó eftir því að allt sem þar kom fram er teoretískt. Þetta er voðalega mikið „heldur“ og „getur“ og „mögulega“ og „hugsanlega“ og það er einmitt málið með framtíðina, það er ekki hægt að meitla hana í stein. Þannig að í raun og veru finnst mér mjög erfitt að fara út í svo viðamikið verkefni og trúi ekki að hæstv. utanríkisráðherra geri lítið úr því hvað þetta aðlögunar- og inngönguferli er mikil vinna. Ég er ekki að segja að þetta sé eingöngu neikvætt, að mörgu leyti er þetta jákvætt og gefur okkur ákveðið aðhald í þeirri umbyltingu sem við þurfum að gera á stjórnsýslunni. En ég held að betra sé að umbylta stjórnsýslunni og gera þær nauðsynlegu lagfæringar sem þarf að gera þar og er í skýrslu rannsóknarnefndar bent á að við þurfum að gera áður en við förum í þetta ferli, mér finnst það gríðarlega mikilvægt.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort honum finnist ekki skynsamlegt að fara fyrst yfir þá sérþætti sem við þurfum að laga í stjórnsýslunni hér á Íslandi. Auðvitað er stjórnsýsla Íslands mjög bundin af því hvað hún er smá, hún þarf að vera tryggð styrkum stoðum áður en við förum inn í hið risastóra skrifræði Evrópubandalagsins.