138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:53]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú svolítið erfitt að færa rök fyrir því að fara annaðhvort inn í Evrópusambandið eða ekki á þessum stutta tíma. Beðið var um rök fyrir því að við ættum að fara inn í Evrópusambandið. Það er rétt, ég talaði á þeim nótum að ég teldi vera rök til þess, þó ég vilji nú sjá hvernig sjávarútvegskaflanum og landbúnaðarkaflanum reiðir af áður. Ég tel að það að fara inn í Evrópusambandið sé minna mál en margir vilja halda. Þetta er stórt mál, en er ekki eins stórt og svo margir vilja gefa í skyn. Við erum á EES-svæðinu. Við höfum tekið yfir mjög mikið af regluverki ESB. Það er ekkert svakalega mikið sem stendur eftir. Það eru auðvitað stór mál sem eru fyrir utan, en samt er ekki svo mikið sem stendur eftir. Þannig að sú er hér stendur telur að þetta sé aðeins minna mál en margir láta í veðri vaka. Við höfum frekar lítil áhrif núna á tilskipanir sem koma til okkar. Ég tel að værum við innan dyra hefðum við meiri áhrif, þótt við hefðum aldrei svakalega mikil áhrif, ég ætla ekki að gefa það í skyn. Við höfum samt meiri áhrif með því að sitja við borðið.

Ég hef líka talsverðar efasemdir um orðræðuna um sjálfstæði Íslands. Menn gera mikið úr því að við mundum missa sjálfstæðið. Ég tel að það sé rangt. Ég tel að það sé hægt að færa rök fyrir því að við gætum jafnvel orðið sjálfstæðari með inngöngu, af því sjálfstæðishugmyndir eru svo breyttar frá því sem áður var. Núna felst sjálfstæði í því að vera í öflugri samvinnu við önnur ríki. Við værum í öflugri samvinnu við Evrópuríkin ef við værum þarna innan dyra. En þetta segi ég allt með þeim sterka fyrirvara, að ég vil sjá hvernig sjávarútvegskaflanum reiðir af og landbúnaðarkaflanum sérstaklega, áður en ég segi að við eigum að fara inn. (Forseti hringir.) Ég er ekki tilbúin til að segja það, en ég sé marga kosti við það.