138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[12:57]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit nú ekki hvort ég geti nokkurn tímann fullnægt kröfum hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar í þessu máli, okkur bara greinir einfaldlega á. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason er algerlega á móti aðildarumsókn að Evrópusambandinu og algerlega á móti því að við göngum nokkurn tímann inn. Það er mín skoðun á málflutningi hv. þingmanns. Sú er hér stendur er annarrar skoðunar. Ég tel að það hafi verið rétt að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel að það sé hugsanlega gott fyrir Ísland að fara inn. Ég segi ekki að það sé gott, ég vil ekki kveða upp úr með það á þessari stundu. Ég vil fyrst sjá sérstaklega sjávarútvegskaflann og landbúnaðarkaflann. Ég hef væntingar um að við getum náð góðri niðurstöðu þar. Ég hef ekkert fyrir mér í því, ekkert endanlegt, en ég hef væntingar um það. Ég tel að Evrópusambandið gæti sýnt okkur ákveðna lipurð í því. Ég veit nú ekki hversu æstir þeir í Evrópusambandinu eru, að fá okkur inn, ég skal ekki segja til um það. Við erum lýðræðisríki, nokkuð þróað lýðræðisríki og erum hluti af Evrópu og höfum tekið upp nánast allar EES-tilskipanirnar. Einhverjar eru í farvatninu, eins og gengur og gerist. Líklega hefur Evrópusambandið meiri áhuga á að Noregur komi inn. Það gæti verið liður í því að fá Noreg inn að fá Ísland inn fyrst. Það getur verið að það hafi verið mjög skynsamlegt hjá okkur að sækja um aðild áður en Noregur fer að hreyfa sig aftur. Þó held ég að þeir fari nú ekki að hreyfa sig alveg á næstunni. Okkar niðurstaða gæti samt haft áhrif á Noreg. Ef við náum góðum samningi getur það hreyft við hlutum í Noregi.

Þannig að geopólitískt séð gæti það verið áhugavert fyrir Evrópusambandið að hafa okkur með. Fyrir okkar neytendur er margt sem er mjög áhugavert við Evrópusambandsaðild. Ég nefni vöruverð og hagfelldari viðskiptahætti o.s.frv.

En ég vil ekki kveða upp úr um það hvort við eigum að fara inn eða ekki, fyrr en ég sé sjávarútvegskaflann (Forseti hringir.) og landbúnaðarkaflann.