138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Evran er gjaldmiðill og nú gengur það svo að gjaldmiðlar veikjast og styrkjast eftir því hvernig efnahagsástand er. Það hefur t.d. oft gerst að dollarinn er sterkur og veikur. Nú er evran veik, það er alveg rétt. Það er bágt efnahagsástand í Evrópu og í mörgum ríkjum Evrópusambandsins. Ég ber ekki þann ugg í brjósti að Evrópusambandslöndin klofni varðandi myntsamstarfið, og einhverjir haldi áfram með evru og aðrir ekki. Ég man t.d. eftir því þegar evran var tekin upp, að þá kom fram að í Belgíu, sem var með belgískan franka, var hagsveiflan innan tveggja héraða í Belgíu ólíkari en t.d. milli Þýskalands og Spánar. Þannig að það á alltaf við, þegar rætt er um Evrópusambandið, að sumum héruðum og löndum gengur verr en öðrum. Þá reynir náttúrlega á samtakamáttinn og að hjálpa þeim ríkjum sem eiga í erfiðleikum. Þannig spóla allir sig saman í gegnum erfiðleikana. Ég held að það verði það sem gerist í Evrópusambandinu.