138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir verði allra kvenna elst, ég hlakka til að sjá það met 150 ár sett af henni, því ég verð vonandi við hliðina á henni.

Mig langar aðeins að færa athyglina frá Evrópusambandinu, þar sem ég er nokkuð viss með afstöðu hv. þingmanns þar. Mig langar að ræða um breytingu á varnarmálalögum. Hv. þingmaður lýsti sig samþykka markmiðunum sem breytingar á varnarmálalögum innihalda, þ.e. að leggja niður Varnarmálastofnun og færa verkefnin annað.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sé samþykk þessu verklagi sem lagabreytingin inniheldur, þ.e. að leggja fyrst niður stofnunina, dreifa verkefnunum um allt og finna þeim svo stað í ráðuneyti sem á eftir að sameina og stofna, hvort sem það er nýstofnað eða fyrirhugað innanríkisráðuneyti. Telur hv. þingmaður þetta verklag til fyrirmyndar?

Ég vil spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til orða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um loftrýmisgæsluna og staðfests vilja sem hann lýsti um að hún væri óþörf og að það ætti að leggja hana niður. Sérstaklega í ljósi þess að hæstv. utanríkisráðherra, í umræðum um varnarmálalögin, lýsti því margoft yfir að verkefnum yrði ekki hætt, og að þetta hefði ekki áhrif á skuldbindingar okkar gagnvart Atlantshafsbandalaginu. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson lýsti annarri skoðun. Nú liggur fyrir að Þjóðverjar koma hingað í maí, raunar á sama tíma og stofnunin verður lögð niður, og Bandaríkjamenn í október. Norðmenn, Kanadamenn og Bandaríkjamenn hafa skuldbundið sig fyrir næsta ár. Er ekki ómögulegt (Forseti hringir.) að hafa verklagið þannig að ekki liggi fyrir (Forseti hringir.) hvernig þetta verður útfært?