138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[13:59]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið, fyrst ég komst strax aftur að, og halda áfram andsvörum við hv. þingmann. Ég fagna því að hún horfir á kostnaðinn og utanríkismál og legg til að við sameinumst um að fara yfir kostnaðaráætlunina varðandi ESB-málið. Það er næsta ómögulegt að fjalla um þá yfirgripsmiklu skýrslu sem hér liggur fyrir á tíu mínútum. Ég tek undir þakkir þingmanna til hæstv. utanríkisráðherra um skýrsluna, hún er til þess að gera ágætt plagg. Hún dregur athygli að fjölmörgum málum sem þyrfti miklu meiri tíma til að ræða, en svona er þetta nú, þetta eru reglurnar sem við höfum sett, þannig að það er líka hægt að kvarta yfir því.

Ég ætla að beina athygli minni að fáum málum og byrja á Evrópusambandinu. Það vekur óneitanlega athygli þegar maður les skýrsluna að það er eins og það sé ákveðinn dampur farinn úr málinu hjá hæstv. utanríkisráðherra. Það örlaði aðeins á sannfæringunni í ræðu hæstv. ráðherra, en hún var samt ekki hér. Kannski er það vegna þess að það eru embættismenn sem skrifa textann þó að sjálfsögðu beri ráðherra ábyrgð á honum. Meira að segja í innganginum hefði maður vænst þess að það yrði vikið frá embættismannatextanum. Þar er talað um að utanríkisráðherra muni einungis fara eftir fyrirmælum Alþingis og í fyllingu tímans leggja aðildarsamninginn undir þjóðina eins og hann talaði um. Reynt er að skapa ímynd af hæstv. utanríkisráðherra, sem ég er viss um að hann er ekki alveg sáttur við, að hann sé viljalaust verkfæri í þessu máli. Það er ekki að furða þó að fyrrverandi formaður og ráðherra Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, úr flokki hæstv. ráðherra, hafi kvartað yfir því að ekki væri verið að berjast fyrir umsókninni, enda lagði hún til í viðtalinu að hún yrði dregin til baka.

Ég er sammála því að það er ekkert hjarta í þessu, engin sannfæring. Ég verð fyrst ég er hérna í inngangskaflanum — með fullri virðingu fyrir því góða starfsfólki utanríkisþjónustunnar sem hefur unnið mjög gott starf í erfiðu árferði. Það er búið að mæða mikið á utanríkisþjónustunni en þessi setning kemur mér spánskt fyrir sjónir, með leyfi forseta:

„Utanríkisþjónustan hefur unnið dyggilega og af trúmennsku að því verkefni sem Alþingi fól henni við að undirbúa aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.“

Ég spyr: Eru menn í vörn? Mér finnst að ekki þurfi að taka fram að þetta ágæta fólk vinni dyggilega og af trúmennsku að verkefnum sem þeim er falið að annast. Hver er staðan á aðildarumsókninni núna? Í skýrslunni er látið að því liggja að leiðtogaráðið taki þetta fyrir, taki ákvörðun innan tíðar eins og það er orðað, það er nú ólíkt fyrir yfirlýsingagleði. Ég man eftir „hraðferðum“ og alls konar yfirlýsingum frá hæstv. ráðherra. Í fyrrasumar lá Samfylkingunni óskaplega mikið á að fallast á umsóknina, bara vegna þess að hún mundi styrkja og bæta efnahagsástandið á Íslandi. Hæstv. ráðherra var dálítið í þeirri vegferð í dag þegar hann talaði um að þetta væri allt liður í efnahagsendurreisninni. Þar er ég honum alls kostar ósammála.

Önnur rök fyrir flýtinum voru þau að Svíar væru í formennsku og það þyrfti að drífa þetta í gegn meðan þeir væru þar, en það gekk nú ekki. Þá kom fram hjá fulltrúum ríkisstjórnarinnar að það mætti fá aðstoð Seðlabanka Evrópu vegna samstarfs í gjaldeyrismálum, það ætti að drífa þetta af, þá mundi opnast fyrir lán en það gerðist ekki. Í vetur kom í ljós að þýska þingið gat tekið allan þann tíma sem það vildi til að fara vel og ítarlega yfir málið, en þetta vekur spurningar um upplýsingagjöfina frá ráðuneyti hæstv. ráðherra. Er eitthvað að í upplýsingaöfluninni? Af hverju var látið að því liggja að þetta tæki örskotsstund, þegar lá fyrir að ferlið væri miklu lengra? Voru ráðherrar kannski að tala gegn betri vitund? Eða var þetta bara einhver óskhyggja af hálfu hæstv. ráðherra?

Núna hafa borist fréttir um það að aðildarumsóknin verði jafnvel ekki á dagskrá. Hæstv. ráðherra gæti kannski svarað því núna í júní. Í skýrslunni er ekki talað skýrar en það að þetta liggi vonandi fyrir innan tíðar.

Utanríkisráðherra Spánar sagði nýlega, Spánn er með formennskuna núna, að hann teldi að í prinsippinu væri málið ekki erfitt. Við verðum að bíða, sagði hann, og sjá hvernig við myndum samstöðu um að koma málinu á dagskrá leiðtogafundarins. Þá spyr ég ráðherra: Stendur eitthvað í vegi fyrir þeirri samstöðu og hvað veldur þessari óvissu? Hefur utanríkisþjónustan aflað sér upplýsinga sem skýra þessi ummæli spænska ráðherrans um að það verði að sjá hvernig mynda eigi samstöðu um þetta allt saman?

Í andsvari áðan fórum við aðeins yfir kostnaðinn. Það hefur verið rætt. Mér og fleiri þingmönnum er mjög umhugað um að vita hvað þetta aðildarumsóknarferli kostar. Ekki bara vegna þess að við alþingismenn og þjóðin eigum skýran rétt á að fá að vita hvað þetta kostar, líka vegna þess að mér finnst ekki bráðliggja á þessu máli á meðan við erum að vinna að efnahagslegri endurreisn. Ég sé ekki að það að fara í 7 milljarða króna útgjöld sem hæstv. ráðherra neitaði ekki hérna áðan — er það milljarðurinn sem hæstv. ráðherra er alltaf að vísa til í kostnaðaráætluninni, en 6 milljarðarnir sem nefndir voru. Það hlýtur að vera að hæstv. ráðherra hafi gleymt mótframlaginu sem vikið er að á bls. 37 í hans eigin skýrslu, að það hljóti að vera skilyrði fyrir því að Evrópusambandið komi með sitt. Á blaðsíðunni á undan er líka talað um að það eigi eftir að setja reglur og meta það hvort Ísland falli yfir höfuð innan þessara — þau falla ekki innan þessarar reglugerðar núna, það þurfi að setja nýjar reglur. Hvað höfum við fyrir okkur í því? Það er kannski næsta spurning. Hvað höfum við fyrir okkur í því að Ísland verði samþykkt inn í ferlið? Þessarar spurningar vil ég spyrja hæstv. ráðherra.

Mikill kostnaður á eftir að falla vegna breytinga á stjórnkerfinu. Við höfum rætt það aðeins hér. Mig langar að spyrja vegna orða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á mbl.is í mars, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Eigum við ekki fyrst að afgreiða það hvort aðild verði samþykkt áður en ráðist verður í gríðarlega mikinn stofnkostnað og breytingar?“ spyr Jón í viðtalinu og bætir við: „Þetta er kostnaðarsamt og tímafrekt og ef af verður verður lagt í grundvallarbreytingar áður en skýr þjóðarvilji í þessum efnum liggur fyrir.“

Ég spyr: Er það rétt hjá landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og ef svo er um hve háar fjárhæðir er að ræða fyrir ríkissjóð? Og nú vil ég bara fá samtölurnar sem ég óskaði eftir áðan. Eða telur kannski hæstv. ráðherra að kollegi hans í ríkisstjórn sé ekki að tala á grundvelli raka, eins og hann ýjaði að í ræðu sinni hér áðan?

Varðandi forgangsröðunina í viðræðunum. Bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra létu að því liggja í umræðum hér í fyrrasumar að þeir vildu að farið yrði strax í stóru málaflokkana. Fyrst skoðaðir kaflar um sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál og ef í ljós kæmi að það steytti á þeim gætum við hætt og gengið frá verkefninu. Við sjáum það strax að þetta eru ákvæði sem við erum ekki tilbúin að gefa eftir og gætu ekki orðið einhvers konar skotsilfur í samningaviðræðum. Er hæstv. utanríkisráðherra sammála þessu? Er þetta eitthvað sem hefur verið rætt innan ríkisstjórnarinnar?

Virðulegi forseti. Tíminn hleypur áfram. Hæstv. ráðherra ræddi um grundvallarþáttinn í endurreisninni. Ég er þessu algerlega ósammála, þó ég sé sammála hæstv. ráðherra í því að við eigum að leitast við að uppfylla Maastricht-skilyrðin og eigum að gera það með skynsamlegum hætti, vegna þess að þau eru skynsamleg. Ég tel enga ástæða til þess að gera það með umsókn inniliggjandi.

Ég vildi líka koma aðeins að Icesave-málinu. Ég ætlaði aðeins að fjalla um það, en tíminn leyfir það ekki. Mig langar þó að spyrja hæstv. utanríkisráðherra, ég minnist þess að hann var með yfirlýsingar um það að hann ætlaði að óska eftir fundi með Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um Icesave-málið og leita eftir aðstoð Bandaríkjamanna í þeim efnum; hvað líður þeirri fundarbeiðni?

Síðan varðandi NATO, það var annað efni sem ég komst ekki yfir, hæstv. ráðherra sagðist nýta svo vel þá fundi og undirbúa (Forseti hringir.) vel fundi sem hann ætti á þeim vettvangi. (Forseti hringir.) Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með það að hæstv. ráðherra hefur ekki séð ástæðu til að sækja tvo síðustu ráðherrafundi (Forseti hringir.) Atlantshafsbandalagsins og spyr hverju það sætir?