138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að ég óskaði eftir fundi með Hillary Clinton til þess að ræða stuðning Bandaríkjanna við okkur innan AGS. Sá stuðningur fékkst. Af fundinum sem settur var upp með mér og Hillary Clinton í tengslum við utanríkisráðherrafund ráðherra NATO í Eistlandi varð ekki. Eins og hv. þingmaður hefur kannski tekið eftir hafa verið annmarkar á flugi til og frá landinu og sú ferð féll niður út af því.

Varðandi það sem hv. þingmaður segir hér að ég hafi talað um hraðferð, er það ekki svo, ég hef aldrei notað þetta orð, alltaf sagt að við færum í gegnum þetta á grundvelli eigin verðleika. Ég hef aldrei talað um hraðferð, það hafa aðrir gert, aðallega leiðarahöfundur Morgunblaðsins .

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég taldi mikilvægt að við hæfum ferlið á meðan Svíar væru í forustu, það skipti máli eins og kom í ljós. Við komumst í gegnum fyrsta nálaraugað undir þeirra forustu .

Hv. þingmaður spyr um upplýsingaöflun og -gjöf af hálfu ráðuneytisins og nefnir þá annmarka sem komu upp vegna þýska þingsins. Þegar ég átti, í byrjun desember held ég, fund í Brussel með aðstoðarutanríkisráðherra Þjóðverja voru þeir ekki einu sinni klárir á því hvernig þetta mál mundi æxlast. Þá var nýfallinn úrskurður stjórnlagadómstólsins í Karlsruhe og menn vissu ekki alveg með hvaða hætti ætti að hantera það.

Hv. þingmaður spyr síðan hvort eitthvað gæti komið í veg fyrir að Ísland yrði tekið á dagskrá núna í júní. Ef hv. þingmaður hefði fylgst með fréttum vissi hún að hollenska þingið kemur saman þremur dögum áður en sá fundur verður haldinn. Það liggja fyrir þrjár tillögur frá fulltrúum tveggja mismunandi flokka um að hafna því að Ísland verði tekið fyrir fyrr en búið (Forseti hringir.) verður að ganga frá Icesave. En þetta ættu ekki að vera fréttir fyrir þingmanninn, því þetta hefur verið í fjölmiðlum.