138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er örugglega rétt hjá hv. þingmanni, ég var ekki að segja henni neinar fréttir. Ástæðan er sú að hún hefur spurt allra þessara spurninga áður og ég hef svarað þeim öllum áður. Þannig er það nú bara. Hv. þingmaður hefur gaman af að endurtaka sig og ég hef gaman af að hlusta á hana.

Það var líka eftirtektarvert að milli andsvara virtist hv. þingmaður skipta um skoðun á því hversu eftirsóknarverð Maastricht-skilyrðin væru. Í fyrra andsvari sagði hún að það væri mjög jákvætt að reyna að fylgja þeim eftir og ná aganum sem þeim fylgdi. Í seinna andsvarinu taldi hún að það væru öll tormerki á því og að það hlytust af því vondar afleiðingar. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Að því er varðar síðan spurningar hennar um síðari NATO-fundinn – eftir rosknu minni minnir mig að það hafi verið krítísk staða í Icesave-málunum sem olli því að ég hætti á síðustu stundu við að fara þangað.

Hv. þingmaður varpaði til mín nokkrum fyrirspurnum um kostnað. Þeim hefur öllum verið svarað til hv. þingmanns; munnlega og skriflega. Það er líka að finna hér. Miðað við þær forsendur sem fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gaf sér, 18 mánaða samningaviðræður, sem ég hef reyndar sagt við hv. þingmann að sé vanáætlað, gengur áætlunin. Hún er á áætlun núna. Miðað við kostnaðinn sem kynni að hljótast af ýmiss konar uppstokkun í stofnanastrúktúrnum er eftirfarandi að segja:

Í dag vitum við ekki hvernig þær stofnanir verða. Ég tel nokkuð úr lagi að ætla að það verði settur upp sá strúktúr sem kemur t.d. fram í áliti framkvæmdastjórnarinnar. Ég tel að það verði ekki. Ég get sagt hv. þingmanni að ég mun leitast við að stofnanirnar verði sem fæstar, kannski ein, kannski innan stofnunar sem nú þegar er til. Ég hef ástæðu til að ætla að við því verði ekki daufheyrst. Það verður bara að koma í ljós. Einungis þegar fyrir liggur um hvað verður samið er hægt að gefa nákvæman kostnað. Ég hef hins vegar (Forseti hringir.) ekki dregið dul á það við hv. þingmann (Forseti hringir.) að ég tel að sá kostnaður verði umtalsverður. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Ja, það kemur líka fram hérna.