138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:17]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir skýrslu hæstv. utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, og tel að fleiri ráðherrar mættu efna til umræðu með þessum hætti hér í þinginu. Það hefur reyndar gerst en ekki oft. Með efni í höndunum vill umræðan verða efnismeiri og afmarkaðri sem oft er þörf á. Mig langar sérstaklega að ræða um málefni norðurslóða og undirbúning aðildarviðræðna við Evrópusambandið hvað varðar upplýsingamál og koma inn á nokkur önnur atriði í efni skýrslunnar og í stefnu stjórnvalda, þá sérstaklega hvað varðar skóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi sem eru nokkrir eins og menn vita.

Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra er kynnt stefnumarkandi framtíðarsýn um málefni norðurslóða, sem er bæði fróðleg og athyglisverð. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið lengi að í stefnu um norðurslóðir og um málefni norðurslóða tvinnist saman öll helstu viðfangsefni okkar á sviði utanríkismála, þ.e. öryggismál, umhverfismál, mannréttindamál og svo þær breytingar sem verða við hlýnun lofthjúps og loftslagsbreytingar sem þegar eru hafnar í lofthjúpi jarðar. Ég sit í þingmannanefnd Norðurskautsráðsins og hef átt þess kost að kynna mér þessi mál þar og vil fagna því að hér er talað skýrt um mikilvægi norðurslóða í utanríkisstefnu Íslands. Ég vil hvetja hv. þingmenn til að kynna sér þetta rækilega. Ég hygg að þar sé að mörgu leyti verið að marka merkileg spor til framtíðar, sem eiga vonandi eftir að nýtast okkur vel í samskiptum við grannþjóðir á þessum slóðum og í því að hafa áhrif á málefni norðurslóða í náinni framtíð.

Það vakna líka spurningar við þennan lestur og um leið og ég tek undir öll þau tíu atriði sem talin eru upp í skýrslunni á bls. 15–16 er það auðvitað þannig að sum þeirra eru ekki bara undir frumkvæði okkar komin, þ.e. að úr þeim verði, heldur líka að önnur samstarfsríki á þessum slóðum líti málið sömu augum. Við höfum fengið nokkra reynslu af því á undanförnum missirum að samstarfsríki okkar líti ekki aðstæður og málefni sömu augum og við. Því vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort og hvar standi að í samskiptum við þau ríki sem hafa gert sig mest gildandi á norðurslóðum og haldið þessa fimm landa fundi sem nefndir hafa verið sé litið á Ísland sem fullgilt strandríki á norðurslóðum eins og segir á bls. 15 í skýrslunni. Eitt er að vilja fá þann status sem við teljum okkur bera og ég er fyllilega sammála að við eigum að leita eftir en annað er hvernig það síðan gengur í norðurslóða- og norðurskautssamstarfinu því að eins og dæmin sanna hafa fimm af þeim átta ríkjum sem eru í Norðurskautsráðinu fundað sérstaklega, m.a. án okkar.

Þetta er grundvöllur þess að geta gert sig gildandi í slíku samstarfi. Það má auðvitað gera með ýmsum öðrum hætti. Hvað varðar að stuðla að alþjóðlegum samningum um viðbúnað vegna eftirlits, björgunar og mengunarvarna þá er það t.d. mjög mikilvægur málaflokkur þar sem reynir á samstarf á milli umhverfis- og utanríkisráðuneytis og fleiri stofnana. Þar höfum við svo sannarlega margt gott til málanna að leggja. Ég tel að við eigum að gera það.

Í síðasta atriðinu sem nefnt er hér í skýrslu ráðherra, að styðja réttindi frumbyggja á svæðinu, vil ég segja það eitt að þeir síðustu verða oft fyrstir. Við megum ekki gleyma því að mannréttindi frumbyggja á þessum slóðum hafa til skamms tíma verið kerfisbundið brotin af yfirvöldum margra ríkja. Það er mjög mikilvægur þáttur í samstarfi um norðurslóðir að frumbyggjar séu ekki einvörðungu með áheyrnaraðild eða einhvers staðar í hliðarherbergjum heldur virkir gerendur í þessu samstarfi. Við eigum að styðja þá og samtök þeirra og styrkja til slíkrar þátttöku, hvort sem það eru inúítar í Kanada eða Samar í Noregi, Svíþjóð eða Finnlandi.

Fyrir liggur, frú forseti, hvar umsóknarferli Íslands að Evrópusambandinu stendur. Öllum þingmönnum er kunnugt um það og næstu skref sem stíga þarf eru vel útskýrð í skýrslunni. Í hv. utanríkismálanefnd hafa ásamt mér starfað þrír aðrir hv. þingmenn í svokölluðum upplýsingahópi sem hefur velt fyrir sér hvernig best sé að stuðla að góðri og hlutlausri upplýsingagjöf um Evrópusambandið, um stefnu þess, málefni, aðildarríki og allt það er varðar Evrópusambandið, framkvæmdastjórnina, Evrópuþingið og þar fram eftir götunum. Þeirri vinnu er ekki lokið en í samræðum okkar og á fundum með fulltrúum annarra þjóða, t.d. fulltrúum Möltu og Svíþjóðar og fleiri þjóða, hafa myndast ákveðnar hugmyndir um að það gæti reynst okkur vel og gagnlegt að Alþingi Íslendinga setti á fót upplýsingaveitu fyrir almenning og legði sig þar fram um að veita góðar, hnitmiðaðar upplýsingar og stuðla að málefnalegri umfjöllun. Það er hugsað þannig að hvert einasta mannsbarn á Íslandi gæti tekið upp símann, sent tölvupóst, bréf eða haft samband með öðrum hætti og fengið svör við tilteknum spurningum frá slíkri upplýsingaveitu sem mundi vinna sér inn traust með verkum sínum eins og vanalegt er. Þannig yrði til — ég vil nú ekki kalla þetta stofnun — ákveðið apparat sem væri sjálfstætt í starfsemi sinni og starfaði eftir ákveðnum reglum og umgjörð sem því væru sett á Alþingi Íslendinga.

Við höfum líka velt fyrir okkur mikilvægi þess að grasrótin, félagasamtök hvers konar, skólar, símenntunarmiðstöðvar og annað slíkt, gæti sótt um styrki úr einhvers konar fræðslusjóði og komið þannig að umræðunni og opnað meðal fólks um allt land. Þetta er mjög lausleg reifun á þeim hugmyndum sem helst voru ræddar í hópnum. Ég tek skýrt fram að hópurinn hefur ekki komist að niðurstöðu en væntanlega tekst okkur það á næstu dögum eða vikum.

Ég vil verja síðustu mínútunni af ræðunni minni í að minna hv. þingmenn á mikilvægi starfsemi skóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi. Ómetanlegt starf hefur verið unnið á síðustu árum og áratugum og nú bætist vonandi fjórði skólinn í hópinn. Það er Jafnréttisskólinn við Háskóla Íslands sem fór af stað í fyrra og er tilraunaverkefni. Ef hægt er að tala um einhver flaggskip í alþjóðasamstarfi Íslendinga eru Sjávarútvegsskólinn, Jarðhitaskólinn og núna nýi Landgræðsluskólinn og vonandi Jafnréttisskólinn einmitt dæmi um slíka faglega og góða starfsemi sem fer kannski ekki hátt en skilar miklum árangri til langs tíma um allan heim. Þannig á góð utanríkisstefna og gott alþjóðlegt samstarf að vera. Því vil ég rétt í blálokin hvetja hæstv. utanríkisráðherra að gera það sem (Forseti hringir.) í hans valdi stendur til þess að styðja að Jafnréttisskólinn (Forseti hringir.) komist á fót hér á landi.