138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Varðandi hið síðasta sem hv. þingmaður nefndi þá hef ég einmitt verið virkur í því að reyna að koma til landsins tveimur námsmönnum af Gaza, sem áttu að koma í Jafnréttisskólann en komust ekki. Það hef ég gert með því að reyna að ná tengslum við Hamas-samtökin sem stöðvuðu það.

Ég vil líka segja hv. þingmanni að ég er alveg sammála henni um það sem hún segir um háskóladeildirnar sem starfa hér og tengjast Sameinuðu þjóðunum. Ég hef mjög nýlega gert reka að því að sameina þær að þeirra eigin ósk í eina deild innan Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Það er nokkuð sem þau hafa barist fyrir árum saman og ég hef beitt mér fyrir og lokið núna.

Að öðru leyti tek ég undir það sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi norðurslóða. Hv. þingmaður beindi til mín spurningu og spurði hvernig gengi að berjast gegn þessari áráttu strandríkjanna fimm að halda sérstaka fundi. Það gengur þokkalega. Ég hef mótmælt því og rætt það við aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna og ég átti fyrr í dag fund hér í húsinu með utanríkisráðherra Kanada sem hér er staddur á leið sinni á milli heimsálfa. Við áttum 30 mínútna fund þar sem þetta var rætt í þaula. Ég er sömuleiðis á leið til fundar til Kanada í júní til þess að ræða þetta mál sérstaklega, þannig að við beitum okkur í þessu máli. Ég tel að þetta sé eitt af því sem skiptir mjög miklu máli til langs tíma. Ég held að við þurfum að leggja fram skýra stefnu og láta finna hvað okkur finnst, gera það alls staðar. Það hefur áhrif. Dropinn holar steininn og eitt af því sem sá kanadíski stjórnmálamaður sem ég talaði við áðan sagði var að það væri alveg ljóst að menn vildu byggja eins þétt undir Norðurskautsráðið og hægt er. Það er lykillinn að þessu.