138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:29]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að það sé lykilatriði að styrkja Norðurskautsráðið eins og hv. ráðherra komst að orði og gleður mig að heyra að hæstv. utanríkisráðherra Kanada skyldi sjá sér fært að koma við hér og ræða þessi málefni við okkur. Það verður að fylgja því mjög fast eftir að þessi fimm ríki myndi ekki sérstakan hóp um málefni norðurslóða. Ég held að það sé mjög mikilvægt að láta í sér heyra hvar og hvenær sem er, eins og ég veit og treysti að hæstv. ráðherra geri. Þessu tengjast margvíslegir hagsmunir Íslands, hvort sem það er í öryggis- eða umhverfismálum, siglingamálum, björgunarmálum og þar fram eftir götunum eins og hefur verið komið inn á. Þetta eru líka þannig hagsmunir að Ísland og íslensk stjórnvöld geta tekið sér stöðu í málefnum norðurslóða í samstarfi Norðurlandanna og líka í samstarfi við Evrópusambandið og í samræðum við Evrópusambandið á næstu vikum og mánuðum og missirum. Við göngum þess auðvitað ekki dulin að innan Evrópusambandsins hefur verið vaxandi áhugi á málefnum norðurslóða og menn hafa verið að horfa meira þangað. Það þýðir að stjórnvöld hér þurfa að setja tíma, krafta og mannskap í þessa hagsmunagæslu eins og aðra. Mikið er rætt um að mannskap vanti en ég hygg að virkilega þurfi að vera með menn á vaktinni alla daga ársins. Það tengist auðvitað líka viðræðum okkar við Evrópusambandið.