138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst sem hv. þingmaður fari hættulega nærri því að lítilsvirða þingið þegar hún talar um að samþykktir þingsins séu einskis virði og séu bara grín. Hv. þingmaður hefur margoft gert nokkurt mál úr því að ekki er búið að ljúka fríverslunarsamningi við Kína. Nú er það svo að mörg önnur ríki eiga í viðræðum við Kína um fríverslun. Til dæmis hefur Ástralía átt í viðræðum við Kína síðan árið 2005 og eftir 13 lotur stendur allt fast. Norðmenn hafa ekki verið alveg jafnlengi og við í viðræðum við þá, en þeim er ekki lokið. Um ástæðu þess að ekki hefur orðið af samningi, þá kann vel að vera að umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu spili þar inn í. Kínverjar hafa gefið mismunandi ástæður. Þeir hafa nefnt jarðskjálftana sem urðu hjá þeim árið 2008. Þeir hafa sjálfir talað um hrunið og kreppuna. En það er í þremur málum sem allt stendur fast. Það er í fyrsta lagi krafa okkar um fullt tollfrelsi á sjávarafurðir án aðlögunar. Þeir vilja ekki fallast á það. Í öðru lagi, sem skiptir nú töluverðu máli fyrir Ísland, ekki síst núna, er krafa þeirra um tímabundinn aðgang kínversks vinnuafls. Þetta eru hlutir sem íslenskir stjórnmálamenn taka ekki opnum örmum. Það ætti hv. þingmaður að skilja, sérstaklega við núverandi aðstæður.

Ég hef ekki á reiðum höndum hve mikil viðskipti eru milli Íslands og Kína, en þau eru náttúrlega margfalt minni en milli Íslands og Evrópusambandsins. Hins vegar er þessar upplýsingar að finna í skýrslunni sem ég lagði fyrir áðan.