138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[14:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er svo heppin að hvorki hún, flokkur hennar, né utanríkisráðherra lifir eftir skoðanakönnunum, sem betur fer. Ef svo væri væri líf okkar töluvert erfitt á stundum og sérstaklega í flokki hv. þingmanns.

Fylgir hugur máli hjá þjóðum sem sækja um? Eiga menn að meta það út frá skoðanakönnunum? Árið 1970 voru 18% Breta fylgjandi aðild að Evrópusambandinu, 1972 voru þeir komnir inn. Í þann mund sem Svíar sóttu um aðild að Evrópusambandinu var fylgið minna en það mældist þegar lægst var á Íslandi í kjölfar Icesave-málsins, eða 28%. Hér á Íslandi hefur yfirleitt verið meirihlutafylgi við Evrópusambandið, ef menn eru að pæla í skoðanakönnunum, þar til kannski í síðustu könnunum — eftir að Icesave-lotan dundi yfir hefur það hrapað, það á sér skiljanlegar ástæður. Það er fráleitt að ætla að hlaupa eftir slíku og hætta við umsókn um aðild að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.)

Af hverju fylgi ég aðild? Af því að ég tel að það sé best fyrir atvinnulíf, fjölskyldur og fyrirtæki.