138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:22]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég trúi því að hv. þm. Pétur Blöndal vilji að þjóðin greiði atkvæði og meini þar með að fara eigi að þjóðarvilja, þannig að meiri hluti þjóðarinnar eigi að ráða. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að þingmenn í þessu máli vilji fara að þjóðarvilja, virði niðurstöðu þjóðarinnar. Ég átta mig illa á því hvert hv. þingmaður er að fara. Þingmenn munu auðvitað greiða atkvæði í þessu máli eins og aðrir og leggja þar með sitt lóð á vogarskálarnar, en síðan hljóta þingmenn og flokkar að virða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Er ekki mjög ólíklegt að þingmenn gangi í berhögg við þjóðarvilja? Mér finnst einhvern veginn liggja í augum uppi að alþingismenn virði niðurstöður í þjóðaratkvæðagreiðslu.