138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:24]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði í ræðu sinni að ég hefði sagt að þjóðaratkvæðagreiðslan væri bindandi þegar þar að kæmi. Ég sagði ekkert um það mál og ég skora á hv. þingmann að finna því stað þegar hann fær ræðu mína útprentaða, því ég sagði ekki neitt um það. Mér er alveg ljóst hvaða lögformlega stöðu þjóðaratkvæðagreiðsla hefur, m.a. í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem fjallað var ítarlega um þessa tillögu.

Varðandi sannfæringuna sem hv. þingmaður talar um, þá getur hún verið flókið fyrirbæri. Sannfæring manna getur verið í ýmsar áttir og stundum skarast hlutirnir. Ég hef þá sannfæringu og ég vil upplýsa hv. þingmann um það, að það sé mikilvægt og rétt að ljúka viðræðuferlinu sem nú er hafið og bera niðurstöðuna síðan undir dóm kjósenda. Það er líka sannfæring mín að þjóðin eigi að ráða niðurstöðunni í þessu máli. Það er mikilvægt fyrir mig sem þingmann að virða þann vilja sem út úr því (Forseti hringir.) kemur. Það er sannfæring mín að svoleiðis eigi að standa að málum.