138. löggjafarþing — 123. fundur,  14. maí 2010.

utanríkis- og alþjóðamál.

611. mál
[15:28]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Pétri H. Blöndal verður mjög tíðrætt um það hvernig hv. þingmenn VG gætu staðið að umsóknarferli og taldi upp nöfn einstakra þingmanna. Ég vil minna hv. þingmann og þingheim á að stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er óbreytt. Við teljum að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Aftur á móti eru skiptar skoðanir innan okkar hreyfingar eins og allra annarra um þetta stóra mál og einnig um leiðir til að nálgast þessa niðurstöðu. Það hefur orðið ofan á að leggja inn umsókn og að þjóðin muni svo með þjóðaratkvæðagreiðslu greiða atkvæði um aðild eða ekki. Sjálf er ég sannfærð um að við sem erum andstæðingar inngöngu í Evrópusambandið eigum ekki að óttast niðurstöðuna.